Jöfnun dreifikostnaðar raforku er réttlætismál

Sérstök umræða um jöfnun dreifikostnaðar á raforku fór fram á Alþingi síðastliðinn mánudag. Málshefjandi var Halla Signý Kristjánsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, en til andsvara var Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra. Halla Signý benti á að landsmenn sitja ekki við sama borð þegar kemur að flutningi raforku til síns heima og að núverandi jöfnunargjald sé langt frá því að jafna verðmuninn á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Hún minntist á nýlega skýrslu starfshóps á vegum ráðuneytisins um raforkuflutning í dreifbýli, þar sem fram koma tillögur um hvernig hægt sé að ráða bót á þessu. Benti hún á að jöfnun dreifikostnaðar á raforku væri réttlætismál. Matvælaframleiðsla færi t.d. að mestu leyti fram í dreifbýli en núverandi kerfi væri þar dragbýtur. „Þegar við tölum bara um samkeppnishæfni atvinnurekenda í landinu hljótum við að þurfa að tala um þá alla í einu mengi,“ sagði hún

Í andsvörum sínum benti Þórdís Kolbrún á að nokkrar leiðir væru færar til að jafna verðmuninn milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Það væri t.d. hægt að afnema skilin milli dreibýlisgjaldskrár og þéttbýlisgjaldskrár og sameina þær, hækka jöfnunargjaldið, eða nýta fjármuni og arðgreiðslur frá Rarik og Orkubúi Vestfjarða tímabundið til að fjármagna það sem upp á vantar.  Starfshópurinn á vegum ráðherra hefur skilað tillögum að úrbótum. Það kemur fram yfirlýstur vilji stjórnvalda til að bæta flutnings- og dreifikerfi raforku þannig að það mæti betur þörfum atvinnulífs og almennings á öllu landinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira