Akranes í skipalyftunni í Vestmannaeyjum. Ljósm. Facebook/ Óskar P Friðriksson.

Farþegaskipið Akranes verður gert út á sjóstangveiði og hvalaskoðun

Í slippnum í Vestmannaeyjum er nú verið að leggja lokahönd á lagfæringar á farþegaskipinu Akranesi. Skipið er í eigu Loðnu ehf. en að því félagi standa Gunnar Leifur Stefánsson og viðskiptafélagar hans. Að sögn Gunnars Leifs fer skipið úr slipp í næstu viku. „Þetta er skip sem hefur leyfi til að flytja 100 farþega og við hyggjumst gera það út á sjóstangveiði og hvalaskoðun frá Akranesi. Þetta er gríðarlega gott sjóskip og hentar prýðilega til ferðaþjónustu af þessu tagi,“ segir Gunnar Leifur í samtali við Skessuhorn. Hann segir að áætlað sé að sigla Akranesi til heimahafnar á Akranesi með hækkandi sól. „Nú verður farið að vinna að markaðsmálum og undirbúningi fyrir útgerð skipsins og ferðir frá Skaganum. Þá eigum við von á öðrum báti til viðbótar frá Póllandi, en sá verður einnig gerður út til hvalaskoðunar. Ég trúi á, eins og ég hef lengi gert, að framtíðin sé í ferðaþjónustu. Hér á Akranesi byrjaði sjóstangveiðin hér við land, með útgerð Andreu fyrir þrjátíu árum eða svo,“ segir Gunnar Leifur sem segja má að hafi verið frumkvöðull á þessu sviði ferðaþjónustu hér á landi.

Skipið Akranes er sterkbyggt skip en það var upphaflega smíðað til að þola siglingar í ís. „Skipið var fyrst notað sem slökkvibátur fyrir sænska herinn og var einnig skólaskip um tíma. Því var svo breytt í túristaskip fyrir rúmum áratug. Hét þá í fyrstu Ísafold en eftir það Víkingur og gert út frá Vestmannaeyjum. Það hefur nú fengið nafnið Akranes og verður gert út af Loðnu ehf. á Akranesi.“

Gunnar Leifur kveðst bjartsýnn á að nú sé ferðaþjónusta á Akranesi að taka við sér og því sé lag að auka þjónustu. „Við sjáum hvað gamli vitinn hefur verið að laða til sín marga gesti og nú Guðlaug á þessu ári. Ég hef enn fulla trú á að Akranes eigi mikið inni þegar ferðaþjónusta er annars vegar og skora á fólk að flýta annarri uppbyggingu og styrkja þannig stoðirnar. Það vantar til dæmis hótel og ýmsa aðra þjónustu í bæjarfélagið,“ segir Gunnar Leifur að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir