Vinnustofan á Vesturlandi fer fram á Hótel B-59 í Borgarnesi næstkomandi fimmtudag.

Vinnustofa til að móta aðgerðaáætlun og stefnumótun í ferðaþjónustu

Hafin er vinna við aðgerðabundna stefnumótun fyrir ferðaþjónustu á Íslandi til ársins 2025. Verkefnið er sameiginlegt verkefni Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Sambands sveitarfélaga, Samtaka ferðaþjónustunnar og Stjórnstöðvar ferðamála. Boðað hefur verið til opinna vinnustofa í tengslum við stefnumótunina og verða slíkar vinnustofur haldnar í öllum landshlutum. Hér á Vesturlandi fer ein slík fram fimmtudaginn 28. nóvember frá klukkan 13-16 á Hótel B-59 í Borgarnesi. „Vinnustofan er opin öllum, og er mikilvægt að fá að borðinu alla hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni; grasrót, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Á vinnustofunni verða ræddar sviðsmyndir um þróun ferðaþjónustunnar til næstu ára og þær leiðir sem er mikilvægt að fara til að ná framtíðarsýn og leiðarljósi ferðaþjónustunnar um að vera leiðandi í sjálfbærni,“ segir í tilkynningu. Vinnustofan er um þrjár klukkustundir. Unnið er í hópum að mismunandi meginmálefnum sem varða ávinning heimamanna, upplifun ferðamanna, verðmæta markaði, álagsstýringu og gæði áfangastaða, arðsemi og nýsköpum og loftslagsmál og orkuskipti.

Síðastliðinn föstudag stóðu Ferðamálastofa og KPMG fyrir fundi þar sem kynntar voru niðurstöður nýrrar skýrslu um afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu á árinu 2018, með samanburði við fyrri ár. Í skýrslunni kom meðal annars fram að gengi krónunnar lækkaði á árinu 2018, sem hefði að óbreyttu átt að leiða til betri afkomu, en kostnaðarhækkanir unnu á móti tekjuaukanum sem skapaðist vegna lækkunarinnar. Betri afkoma var af rekstri hótela í Reykjavík en úti á landi sem versnar eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu. Það styður þá ályktun að ferðamenn fari minna út á land en áður. Afkoma bílaleiga og hópbílafyrirtækja versnaði milli 2017 og 2018 og var afkoma bílaleiga að meðaltali við núllið en tap hjá hópbílafyrirtækjum. Afkoma ferðaskrifstofa batnaði milli ára þrátt fyrir óbreyttar tekjur vegna lægri kostnaðar og var hagnaður að meðaltali bæði árin. Afkoma afþreyingarfyrirtækja stóð nánast í stað milli áranna 2017-2018 í krónum talið þrátt fyrir hækkun tekna. Almennt var hagnaður af rekstri þeirra bæði árin.

Líkar þetta

Fleiri fréttir