Uppskriftir eftirstríðsáranna komnar út á bók

Espólín bókaforlag hefur gefið út bókina Uppskriftir eftirstríðsáranna – matur úr íslenskum eldhúsum eftir stríð. Þar er á ferðinni öðruvísi matreiðslubók með aðkomu fjögurra kvenna. „Með henni er haldið á lofti merki þeirra sem löngum komu við sögu þar sem matur var gerður. Matargerð hefur breyst í aldanna rás og mun áfram taka breytingum. En sagan má aldrei gleymast,“ segir í tilkynningu frá höfundi. Í bókinn eru 50 uppskriftir upp úr matreiðslubókum systranna Sigurlaugar og Guðbjargar Sveinsdætra frá Tjörn á Skaga sem stunduðu báðar nám við Kvennaskólann á Blönduósi á stríðsárunum. Sigurlaug Björnsdóttir frá Kornsá var matreiðslukennari og Sólveig Sövik skólastýra.

„Það er býsna langur vegur frá eldhúsi Kvennaskólans á Blönduósi á tímum síðara heimsstríðs til nútímaveitingahúss. Samt er einhver samhljómur, einn og sami strengurinn gengur gegnum allt ferlið. Uppskriftunum frá Blönduósi er fylgt úr hlaði af höfundum með textum dagsins. Textar, m.a. um það sem efst er á baugi í samtímanum eða hjá höfundum, rifjaðir upp þættir úr sögu kvennafræðslu og saga réttanna. Uppskriftirnar urðu kveikjan að samtali milli höfunda við leit að formi nýrrar matreiðslubókar sem nú lítur dagsins ljós.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir