Jólabingó Kvenfélagsins 19. júní verður á föstudaginn

Hið árlega jólabingó Kvenfélagsins 19. júní fer fram í sal Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri föstudaginn 29. nóvember kl. 20:00. Þessi viðburður hefur verið haldinn árlega í um 50 ár en Kvenfélagið 19. júní er nú fjölmennasta kvenfélag Borgarfjarðar þar sem tæplega 60 konur á öllum aldri eru félagar.

Í ár verður bingóið afar glæsilegt en fjölmargir góðir vinningar hafa borist kvenfélagskonum og vilja þær færa öllum sem hönd hafa lagt á plóg kærar þakkir fyrir. Meðal vinninga verða t.d. hótelgistingar, gjafabréf í ýmsa afþreyingu, vöruúttektir, snyrtivörur, leikföng, bækur, jólavörur og ýmislegt fleira.

Allur ágóði af bingóinu í ár mun renna til kaupa á nýju sjúkrarúmi fyrir Heilbrigðisstofnun Vesturlands en hvert rúm kostar um 500.000 krónur. Kvenfélagið 19. júní hefur nú þegar gefið eitt rúm og vonast kvenfélagskonur til að geta gefið annað að bingói loknu. Hollvinasamtök HVE hafa staðið fyrir söfnun vegna nýrra rúma nú í haust en ný rúm munu auka þægindi þeirra sem þurfa á þjónustu sjúkrahússins að halda og sömuleiðis auðvelda starfsfólki verkin.

Ágóðinn af jólabingóinu 2018 fór upp í kaup á Nustep fjölþjálfa sem gefinn var til dvalar- og hjúkrunarheimilisins Brákarhlíðar í Borgarnesi. Kvenfélagið gaf samskonar tæki í sjúkraþjálfunarmiðstöð Halldóru í Borgarnesi árið 2017 og hefur það reynst vel. Fjölþjálfinn gagnast afar fjölbreyttum hópi, m.a. fólki sem er lamað fyrir neðan mitti, í annarri hliðinni eða glímir við annars konar skort á hreyfifærni vegna erfðasjúkdóma, veikinda, aldurs eða slysa. Tækin hafa því verið kærkomin viðbót inn á Brákarhlíð og sjúkraþjálfunarmiðstöðina.

Í hléi á bingóinu verður hægt að kaupa veitingar að hætti kvenfélagskvenna, kaffi, sælgæti og drykkjarföng. Að þessu sinni verður hefðin brotin þar sem gestir munu hafa möguleika á að greiða fyrir bingóspjöld eða veitingar með greiðslukortum.

Kvenfélagið hefur alla tíð notið mikillar velvildar í héraðinu og hlakka kvenfélagskonur til að taka á móti gestum þetta kvöld sem þannig leggja sitt af mörkum til góðgerðarmála á svæðinu.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir