Skagakaffi komið á söluskrá

Kaffihúsið og veitingastaðurinn Skagakaffi er nú komið á söluskrá hjá fyrirtækjasölunni Kompaníi og er auglýst eftir tilboðum í reksturinn. Í húsinu hafa á liðnum árum verið rekin kaffihús með nöfnunum Skökkin, síðar Lesbókin og nú Skagakaffi. Alls hafa fjórir rekstraraðilar komið að rekstri í húsinu á jafn mörgum árum. Katrín Guðjónsdóttir og Marius Ciprian Marinescu festu kaup á kaffihúsinu síðastliðið sumar og opnuðu þar kaffihúsið Skagakaffi 1. ágúst síðastliðinn. Þau hafa verið að bjóða upp á léttar veitingar, kaffi og meðlæti auk þess sem bjór er seldur af krana.

„Staðurinn er með rekstrarleyfi sem heimilar opnun til kl. 23 á kvöldin. Nýr leigusamningur til 5 ára,“ segir í sölulýsingunni. Þá kemur fram að veltan er um 2,5 milljónir á mánuði. „Eigendur hafa nýverið fjárfest umtalsvert í tækjum og búnaði. Strax og án nokkurs tilkostnaðar eru miklir möguleikar fyrir nýja eigendur að auka veltuna til muna með lengri opnunartíma. Hægt að vera með íþróttaleiki á kvöldin og um helgar.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir