Þórarinn fer með rímur eftir bróður sinn. Ljósm. Anna Hallgrímsdóttir.

Þórarinn frá Hamri las úr óbirtum rímum eftir bróður sinn

Vel var mætt á Þorsteinsvöku sem fram fór á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi í liðinni viku. Að kvöldinu stóð nýlega stofnað félag sem ber heitið Arfur Þorsteins frá Hamri. Þorsteinsvaka þessi var skilgreind sem óformlegur framhaldsstofnfundur félagsins. Að þessu ljóða- og sagnakvöldi komu nokkrir einstaklingar úr Borgarnesi og Reykjavík. Flutt voru stutt ávörp og lesin valin ljóð og rímur eftir skáldið.

Til máls tóku Guðrún Nordal, Vigdís Grímsdóttir, Theódór Þórðarson, Ástráður Eysteinsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Valdimar Tómasson, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir og Þórarinn Jónsson frá Hamri. Sá síðastnefndi las valdar rímur úr bálki sem Þorsteinn bróðir hans orti 13 eða 14 ára að aldri. Rímnabálkurinn fjallar um það þegar norðanmenn sækja suður yfir heiðar og ráðast á Þverhlíðinga. Glöggir menn töldu sig þar þekkja ýmsa valinkunna sómamenn af lýsingu Þorsteins. Ótrúlegt þykir að unglingur skuli hafa svo gott vald á íslenskri tungu sem raun ber vitni. Rímnabálkur þessi hefur aldrei á prent farið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir