Ætla að verða með fjóstengda ferðaþjónustu á Refsstöðum

Síðastliðið sumar festu hjónin Anna Lísa Hilmarsdóttir og Brynjar Bergsson bændur á Refsstöðum kaup á húsi á Akureyri sem þau fluttu suður í Borgarfjörð. Skessuhorn hefur áður greint frá flutningi hússins. Húsið á að nota til ferðaþjónustu en að sögn Önnu Lísu er ekki komin fastmótuð hugmynd um hvað þau ætli að bjóða upp á. „Hugmyndin er að verða með fjósatengda ferðaþjónustu en við eigum eftir að taka endanlega ákvörðun um hvernig við viljum hafa þetta. En við ætlum allavega að hafa kaffihús, bar, litla verslun með afurðum frá Refsstöðum og jafnvel fleiri framleiðendum, bæði handverk og mat. Fyrir utan ætlum við að hafa leikvöll sem verður afgirtur svo foreldrar geti setið áhyggjulausir og fylgst með börnunum sínum öruggum að leik. Það er stutt í fjósið og svo eru vélar og tæki á ferðinni svo ég vil vera örugg um að börn leiki ekki lausum hala um svæðið,“ segir Anna Lísa. Þá geta gestir fengið að fylgjast með húsdýrum á bænum. „Við erum búin að setja upp hænsnakofa við nýja húsið en það munu svo fleiri lítil gripahús rísa þar. Við verðum með heimalninga, kálfa og svín fyrir gestina að skoða,“ segir Anna Lísa.

Gulli Byggir kemur við sögu

Framkvæmdir við húsið vinna þau hjónin í samvinnu við Gunnlaug Helgason húsasmið og þáttastjórnanda sjónvarpsþáttanna Gulli Byggir. Þættirnir um framkvæmdirnar á Refsstöðum verða sýndir í apríl og maí á næsta ári og er stefnan að húsið verði tilbúið fyrir þann tíma. „Gulli kemur til okkar inn á milli, hann fylgdi okkur þegar húsið var flutt hingað og kemur þegar öll stærri verk eru í gangi. Þess á milli erum við með iðnaðarmenn að hjálpa okkur,“ segir Anna Lísa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir