Telur Play ætla að hefja starfsemi með undirboðum á vinnumarkaði

Á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands nýverið var m.a. rætt um undirboð á markaði. Hið væntanlega flugfélag Play barst meðal annars í tal. Í pistli Drífu Snædal segir um málið: „Það þótti tíðindum sæta að nýtt flugfélag var stofnað hér á landi og fréttir berast af því að kostnaði verði haldið í lágmarki með öllum ráðum, m.a. með því að halda launum niðri. Fyrirtækið hefur ekki birt kjarasamning sem það þykist hafa gert um störf flugliða og fær fólk sem sækir um störf varla að vita kaup og kjör. Þær vísbendingar sem okkur hafa borist hníga í þá átt að greiða á grunnlaun langt undir því sem almennir kjarasamningar segja til um,“ skrifar Drífa. Hún hvetur fyrirtækið til að birta kjarasamninginn og leggja allt á borðið. „Ekki aðeins á fólk sem hyggst sækja um störf hjá Play rétt á þessari vitneskju heldur skiptir það okkur öll máli ef verið er að stunda undirboð á vinnumarkaði. Ég ætlast líka til þess að fjárfestar og þeir sem eiga í viðskiptum við fyrirtækið krefji það um þessar upplýsingar. Það verður ekki liðið að fyrirtæki starfi á íslenskum vinnumarkaði með undirboðum,“ skrifar Drífa Snædal forseti ASÍ.

Líkar þetta

Fleiri fréttir