Áhöfnin á Bergvík GK aðstoðaði skipverja á Blíðu SH við að sækja gildrurnar sem voru úti þegar Blíða sökk á Breiðafirði fyrr í mánuðinum. Ljósm. sá.

Sóttu gildrur og búnað Blíðu

„Bergvíkin kom og hjálaði okkur í fjóra daga í síðustu viku að sækja allt sem við áttum og koma því í land,“ segir Ólafur Jónsson, annar tveggja skipstjóra Blíðu SH-27, sem sökk á beitukóngsveiðum norður af Langeyjum á Breiðafirði 5. nóvember síðastliðinn, en Ólafur var í fríi þegar skipið sökk. „Við tókum allt sem við áttum úti í land. Þetta voru 20 strengir, samtals um tvö þúsund gildrur,“ bætir hann við. „Við í áhöfn Blíðu fórum með þeim út, strákunum á Bergvíkinni, að tína þetta upp. Það gekk allt í sóma, var mikil vinna í stuttan tíma en við fengum gott veður og þetta er allt komið í land,“ segir hann og bætir því við að allir séu búnir að jafna sig eftir að Blíðan sökk.

Á laugardag fór Ólafur ásamt fleirum út í Rif og sótti Báru SH-027. Hún er nú komin suður til Njarðvíkur þar sem henni verður breytt í beitukóngs- og ígulkerjabát, sem sagt til sömu veiða og stundaðar voru á Blíðu. Ólafur kveðst þó ekki vita hvenær hann og áhöfnin kemst aftur til veiða. „Það mun taka einhvern tíma, vikur eða jafnvel mánuði, að útbúa þennan bát áður en við getum farið að veiða á honum. Það þarf að að smíða allt nýtt á dekkið á Bárunni, því það er ekkert í henni sem við notum til þessarra veiða. En að öðru leyti er hún mjög góður bátur,“ segir Ólafur Jónsson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir