Sigurður Hólmar Jóhannesson hjá heildversluninni Ozon.

Apótek Vesturlands er fyrst til að taka í sölu CBD vörurnar

Heildsalan Ozon er fyrsta fyrirtækið hér á landi sem hefur innflutning á snyrtivörum sem innihalda virka efnið CBD sem unnið er úr hampi. Það er Sigurður Hólmar Jóhannesson, framkvæmdarstjóri Ozon og sonur hans Viktor Snær sem standa á bakvið innflutninginn á vörunum. Sigurður kynntist CBD fyrst fyrir nokkrum árum vegna dóttur sinnar sem er með sjaldgæfan taugasjúkdóm sem kallast AHC. „Þetta er svo sjaldgæfur taugasjúkdómur að aðeins einn á móti milljón fá hann. Þetta er ólæknandi sjúkdómur sem er oft kallaður móðir allra taugasjúkdóma því hann hefur öll einkenni allra annarra taugasjúkdóma,“ útskýrir Sigurður. „Við höfum prófað óteljandi lyf fyrir hana sem flest virka ekkert en svo kynntumst við CBD vörum fyrir nokkrum árum og uppgötvuðum þar hvað þetta efni er stórkostlegt. Við fórum að kynna okkur hampinn betur og komumst að því að þessi planta er alveg mögnuð. Það er hægt að vinna svo mikið úr henni sem gerir okkur gott. Í kjölfarið fórum við að flytja inn hampvörur og núna nýlega var leyfður innflutningur á snyrtivörum sem innihalda CBD svo við byrjuðum að flytja þær inn líka. Vonandi verður í framtíðinni leyfilegt að flytja inn fæðubótaefni með CBD,“ segir Sigurður.

CBD einstakt efni

Vörurnar sem Sigurður flytur inn er hægt að kaupa í vefversluninni www.hempliving.is auk þess sem Apótek Vesturlands er fyrsta apótek landsins til að setja vörurnar í sölu. „Þetta eru gæðavörur sem eru framleiddar af svissneska fyrirtækinu Cibdol. Við erum með allskonar snyrtivörur; handáburð, varasalva, krem við exemi, psoriasis og bólum. En þetta er bara það sem við erum að byrja með og ætlunin er að bæta við vörum,“ segir Sigurður. Spurður hvað sé frábrugðið við vörur sem innihalda CBD segir hann það fyrst og fremst vera þá einstöku virkni sem CBD hefur. „CBD er efni sem bindur sig við okkar mólikúl og örvar endurnýjun fruma í líkamanum,“ svarar Sigurður og bætir því við að í líkama okkar séu svokallaðir cb viðtakar sem taka vel við þessu efni því það sé náttúrulegt og líkaminn okkar veit nákvæmlega hvernig hann getur notað efnið, sem á ekki alltaf við um efni sem búin eru til á tilraunastofum.

Ekki vímugjafi

Þá tekur Sigurður fram að CBD sé unnið úr iðnaðarhampi sem inniheldur aðeins örlítið brot af vímuefninu THC. „Efnið sem gefur fólki vímu er THC en í iðnaðarhampi er aðeins um 0,3% THC á móti um 15-30% sem er í marijuana. Svo þegar efnin í iðnaðarhampinum eru unnin meira þá er hægt að taka út THC og í þessum vörum er alveg búið að taka þennan vímugjafa úr. Fólk tengir gjarnan saman vörur með CBD og vímuefni og þess vegna hefur verið svona erfitt að fá leyfi fyrir því að flytja inn og selja vörur með þessu efni. Kannabisplantan er bara svo margbreytileg og það er margt við hana sem getur gert okkur mjög gott og tengist vímugjafanum THC ekki neitt,“ útskýrir Sigurður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir