Ósamræmi í þróun fjárveitinga í umhverfisgeiranum

Mikið ósamræmi er í þróun fjárveitinga til mismunandi verkefna sem falla undir verksvið umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, að því er fram kemur í upplýsingum sem Samtök náttúrustofa tóku saman úr fjárlögum áranna 2005-2019 og fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. „Þegar horft er á þróunina sést að meðalframlag til hverrar náttúrustofu lækkaði um 35% á núverandi verðgildi, þegar tekinn er munur á hæstu fjárveitingunni á tímabilinu, árið 2008, og fjárveitingunni árið 2019,“ segir Róbert A. Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands. „Skoðað á sama hátt lækkaði fjárveiting til verndar Breiðafjarðar um 44% frá árinu 2005-2019. Allt önnur mynd blasir við þegar litið er á aðrar stofnanir. Fjárveitingar hækkuðu um 50% til Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2005-2019 og um 82% til Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, en fjárveitingar til Skógræktarinnar hækkuðu um 126% frá 2015-2019.“

Að sögn Róberts eru náttúrustofurnar átta dreifðar um allt land og hver um sig með sjálfstæðan fjárhag. „Þessi samanburður á meðalframlagi til náttúrustofa annars vegar og til nokkurra annarra stofnana á sviði umhverfismála hins vegar er sláandi. Við samgleðjumst kollegum okkar, enda er fullt tilefni til að efla rannsóknir á náttúru landsins. Aftur á móti erum við ósátt við lækkunina til náttúrustofa, sem nemur um það bil kostnaði við stöðugildi eins sérfræðings á hverri stofu. Á litlum stofnunum munar aldeilis um minna. Eftir hrun fengum við þær skýringar að um almenna aðhaldskröfu væri að ræða en í uppsveiflunni undanfarin ár á það auðvitað ekki við lengur og höfum við ekki fengið skýringar á því að þróunin hefur ekki verið sú sama á náttúrustofnunum og öðrum sambærilegum stofnunum. Þessi breyting byggir því ekki á stefnumótun um að veikja starfsemi náttúrustofnanna.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir