Losun frá bílaumferð hefur aukist gríðarlega

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna vegasamgangna hefur aukist gríðarlega, að því er fram kemur á vef Umhverfisstofnunar. Tölur um losun frá vegasamgöngum og hlutfall af þeirri losun sem fellur á beina ábyrgð stjórnvalda sýna að árið 2005 voru vegasamgöngur 26% af losun. Árið 2017 var hlutfallið komið upp í 34%, en þar vega fólksbílar mest. Tölur frá síðasta ári liggja ekki fyrir. „Á meðan losun frá vegasamgöngum hefur aukist þá hefur heildarlosun sem fellur á beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda dregist saman um 5% miðað við 2005. Ef vegasamgöngur eru fráksildar, þá hefur heildarlosun dregist saman um 15%,“ segir á vef UST. „Á mannamáli þýðir þetta að á meðan heildarlosun í flestum öðrum flokkum hefur dregist saman, hefur losun frá vegasamgöngum aukist gríðarlega.“ Segir stofnunin að til varnar hnattrænni hlýnun varði miklu að fjölga hleðslustöðvum sem selja rafmagn á bíla. Svigrúm almennings til að minnka losun sé hvað mest í samgöngum. Öflugir orkuinnviðir og gott aðgengi að þeim skipti því höfuðmáli til að samgöngur landsmanna geti orðið umhverfisvænni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir