Ástand sjúkrabílaflotans í umdæmi HVE á Vesturlandi hefur verið afar bágborið undanfarin ár. Meðfylgjandi mynd er úr safni Skessuhorns og tekin eftir að sjúkrabíll hafði bilað í útkalli. Ljósm. kgk.

Fyrstu nýju sjúkrabílarnir verða af gerðinni Benz Sprinter

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um kaup á 25 nýjum sjúkrabílum liggur fyrir í kjölfar útboðs Ríkiskaupa í haust. Þar með er endurnýjun sjúkrabílaflotans loks hafin í samræmi við samkomulag Sjúkratrygginga Íslands og Rauða krossins á Íslandi frá 11. júlí í sumar. Ekki er þó gert ráð fyrir að fyrstu bílarnir verði afhentir fullbúnir til notkunar fyrr en í september á næsta ári. Sjúkrabílaflotinn á landsvísu og þar með hér á Vesturlandi er orðinn verulega gamall og úr sér genginn, enda komust Sjúkratryggingar og Rauði krossinn ekki að samkomulaginu um endurnýjun samnings fyrr en í sumar eftir nokkurra ára tafs jafnvel þótt fyrir lægi að þörfin fyrir nýja bíla væri orðin aðkallandi. Um alvarleika þeirra tafa hefur verið fjallað í fjölda frétta í Skessuhorni á liðnum árum.

Það var Fastus sem átti tilboðið sem skoraði hæst í útboðinu og var því tekið. Bílarnir 25 eru af tegundinni Mercedes Benz Sprinter. Þeir eru stórir og rúmgóðir sem tryggir sjúklingum góðar aðstæður, auðveldar sjúkraflutningamönnum að sinna þeim um borð og eykur þannig öryggi þjónustunnar. Í útboðinu var áhersla lögð á að nýir bílar myndu uppfylla ströngustu kröfur sérfræðinga varðandi öryggi, aðbúnað og vinnuumhverfi.

Samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi Sjúkratrygginga og RKÍ er gert ráð fyrir að alls verði 68 sjúkrabifreiðar endurnýjaðar fyrir árslok 2022, en flotinn samanstendur af um 80 bílum. Samkomulagið gerir því ráð fyrir að á samningstímanum verði endurnýjun á stærstum hluta þeirra sjúkrabíla sem nú eru í notkun og að endurnýjaðir verði allir sjúkrabílar sem nú eru í fremstu röð viðbragðs.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þetta stóran og kærkominn áfanga: „Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er sérstök áhersla lögð á skilvirka og öfluga sjúkraflutninga sem lið í því að jafna aðgengi landsmanna að góðri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Endurnýjun sjúkrabifreiða og búnaðar skiptir þar miklu máli, til að halda uppi tilskildum gæðum, tryggja öryggi sjúklinga og sjúkraflutningamanna og standa undir umfangi þjónustunnar til framtíðar“ segir heilbrigðisráðherra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Unglingalandsmóti frestað

Framkvæmdarnefnd Unglingalandsmóts UMFÍ í samráði við sóttvarnarlæknir og Almannavarnir hafa ákveðið að fresta mótinu sem fara átti fram á Selfossi... Lesa meira

Ýmiskonar ferðamáti

Nýliðin helgi var líklega einhver stærsta ferðahelgi í langan tíma á Snæfellsnesi enda veðurspáin hagstæð og því mikið af ferðalöngum... Lesa meira