Lísa Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Rútuferða og Bifreiðaþjónustu Snæfellsness. Ljósm. úr safni/ tfk.

Bifreiðaþjónustu Snæfellsness lokað um mánaðamótin

Almennri verkstæðisþjónustu Bifreiðaþjónustu Snæfellsness í Grundarfirði verður lokað föstudaginn 29. nóvember næstkomandi. Bifreiðaþjónusta Snæfellsness er í eigu Rútuferða og er þetta liður í breytingum á rekstri fyrirtækisins. „Verkstæðinu verður lokað í núverandi mynd. Okkar helsti tekjuliður eru rútuferðirnar. Verkstæðið keyptu Rútuferðir á sínum tíma til að hafa aðstöðu fyrir tæki og tól og til að geta sinnt viðhaldi á hópferðabifreiðunum. Nú er orðið það mikið að gera á vettvangi Rútuferða, en minna á verkstæðinu, að við höfum ákveðið að loka því og hættum þar með að reka almennt bifreiðaverkstæði,“ segir Lísa Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Rútuferða og Bifreiðaþjónustu Snæfellsness, í samtali við Skessuhorn.

„Þó munum við áfram annast framrúðuskipti fyrir tryggingafélögin,“ segir hún. „En öllum öðrum almennum bílaviðgerðum verður hætt og verkstæðið eingöngu notað til viðhalds og viðgerða á hópferðabifreiðum Rútuferða,“ bætir hún við. „Eini starfsmaður Bifreiðaþjónustu Snæfellsness, sem hefur sinnt almennum bílaviðgerðum til þessa, lætur af störfum í lok mánaðarins. Hann langaði að breyta til og hefur fundið sér annað að gera, þannig að það er allt saman gert í sátt og samlyndi. Starfsmenn Rútuferða, sem hafa bæði annast akstur og viðhald á rútunum, munu gera það áfram á verkstæðinu þó almenn bifreiðaþjónusta leggist af,“ segir Lísa Ásgeirsdóttir að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir