Fresta útsendingum frá fundum bæjarstjórnar

Fyrirhugað var að hefja upptökur á fundum bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar, til birtingar á heimasíðu sveitarfélagsins, 1. nóvember síðastliðinn. Sátt er um málið meðal allra lista, sem er í samræmi við stefnu þeirra allra um opnari, skilvirkari og gagnsærri stjórnsýslu, að því er fram kemur í fundargerð frá síðasta fundi bæjarstjórnar. Bæjarráð hafði áður fjallað um málið og lagt til að útsendingum yrði frestað um þrjá mánuði, þar sem tækjabúnaður, umgjörð og nánari útfærsla lægi ekki fyrir. Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu bæjarráðs með fjórum atkvæðum gegn þremur. Fulltrúar Okkar Stykkishólms gagnrýndu frestunina í bókun sinni og kváðust ekki skilja hvers vegna tæki svona langan tíma að hanna útfærslu og umgjörð fyrir verkefnið. Nú þegar sendi fjöldi bæjarfélaga út frá fundum og Stykkishólmsbær þyrfti ekki að finna upp hjólið í þeim efnum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir