Berglind Jósepsdóttir er 33 ára, tveggja barna móðir í sambúð og berst hún nú við krabbamein.

Efna til áheitasöfnunar fyrir unga móður í Grundarfirði

Eigendur BOX7, Crossfit stöðvarinnar í Grundarfirði, standa fyrir áheitasöfnun til styrktar Berglindi Jósepsdóttur næstkomandi laugardag, 23. nóvember. Ætlunin er að róa 500 kílómetra og safna áheitum og eru allir Grundfirðingar og aðrir hvattir til að leggja málefninu lið. Crossfit stöðin verður opnuð klukkan 8 á laugardagsmorgun og verður ekki lokað aftur fyrr en búið er að ná 500 kílómetrum. Viðburður var stofnaður á Facebook undir nafninu „Berjumst með Beggu“ og þar eru allir sem geta hvattir til að aðstoða með róðurinn og söfnunina. „Endilega komið og hjálpið okkur að róa bæði ungir sem aldnir. Þurfum alla þá hjálp sem býðst,“ segir í tilkynningu.

Begga er 33 ára, tveggja barna móðir í sambúð með Sigurbirni og greindist hún með krabbamein í upphandlegg í júní síðastliðnum. Begga hefur síðan þá þurft að undirgangast lyfameðferð sem geta reynt mikið á. „Hún hóf sína fimmtu lyfjameðferð 6. október, full af von og trú þar sem meinið hafði minnkað en þá komu þungbærar fregnir, meinið hafði stækkað og til viðbótar höfðu bæst við fimm mein í lungum. Nú hefst hjá Beggu erfið geislameðferð sem hún verður í næstu þrjár vikurnar og svo áframhaldandi lyfjameðferð eftir það. Hún þarf mikinn kraft og stuðning til að halda áfram að berjast við meinin,“ segir í viðburðinum á Facebook.

Þeir sem vilja leggja Beggu og fjölskyldu lið er bent á að hægt er að heita á hvern kílómeter sem á að róa auk þess sem tekið verður við frjálsum framlögum og verður kassi á staðnum þar sem hægt er að setja pening og tekið er við millifærslu á reikning: 0321-13-161444, kt: 250868-4999.

Líkar þetta

Fleiri fréttir