Arnþór Pálsson á bakvið afgreiðsluborðið í nýju húsnæði Skúrsins. Ljósm. sá.

Skúrinn opnaður á nýjum stað

Veitingastaðurinn Skúrinn var opnaður á nýjum stað við Aðalgötu 25 í Stykkishólmi mánudaginn 4. nóvember síðastliðinn. Eftir að rekstri verslunarinnar Bensó var hætt um miðjan september ákváðu eigendur Skúrsins að flytja alla starfsemi þangað, en hún hafði fram að þeim tíma verið á tveimur stöðum í bænum. „Við erum ánægð með flutninginn,“ segir Arnþór Pálsson, einn fjögurra eigenda Skúrsins, í samtali við Skessuhorn. „Viðbrögðin frá íbúum hafa verið frábær og það er búið að ganga mjög vel fyrstu vikuna,“ segir hann ánægður.

Eigendur Skúrsins eru, auk Arnþórs, þau Þóra Margrét Birgisdóttir, Rósa Kristín Indriðadóttir og Sveinn Arnar Davíðsson. Frá miðjum septembermánuði hafa þau staðið í ströngu við framkvæmdir í nýju húsnæði. „Við þurftum að stækka eldhúsið töluvert, breyta salnum og ýmislegt fleira til að gera staðinn að okkar,“ segir Arnþór. Hann segir að hamborgararnir, vefjurnar, pitsurnar og vængirnir verði á sínum stað en auk þess verði hægt að fá sælgæti, tóbak, ís og bílavörur og fleira í Skúrnum. „Eftir flutningana verðum við svona grunnsjoppa sem leggur áherslu á góðar veitingar. Það finnst okkur skemmtileg breyting. Það er meira rennirí af fólki allan daginn en á veitingastöðum, alltaf að tínast inn fólk. Við erum mjög kát með þetta og reiknum með að þetta verði bara gaman,“ segir hann. „Hér verður opið alla daga frá kl. 10 til 22. Grillið opnar fyrir hádegið og verður opið fram á kvöld og við byrjum að baka pitsur kl. 17:00, eins og var á pizzastaðnum okkar. Boltinn verður í boði á skjánum og ef einhver vill horfa á eitthvað sérstakt þá fær hann bara fjarstýringuna. Þetta verður að vera heimilislegt og kósí,“ segir Arnþór Pálsson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir