Gunnar J. Straumland gefur út bókina Höfuðstaf

Út er komin bókin Höfuðstafur, háttbundin kvæði, eftir Gunnar J. Straumland. Gunnar er kennari, myndlistarmaður og kvæðamaður. Hann fæddist á Húsavík, er af þingeyskum ættum í móðurætt en föðurætt hans er úr Skáleyjum á Breiðafirði. Hann er nú búsettur í Melahverfi í Hvalfjarðarsveit ásamt eiginkonu sinni Önnu Guðrúnu Torfadóttur grafíklistakonu.

Frá unglingsárum hefur Gunnar ort, bæði háttbundin kvæði og frjálsari í formi. Undanfarna áratugi hefur hann einbeitt sér að margbreytileika íslenskra bragarhátta og yrkir allt frá hinu hefðbunda ferskeytluformi til dróttkvæða og sléttubanda. Fjallar hann í ljóðum sínum um náttúruna, pólitík og allt til hálfkærings, eins og hann sjálfur lýsir því. Sum ljóðanna í Höfuðstaf eru frá árunum eftir hrun en flest ort á síðustu þremur til fjórum árum. Bókina prýða þrettán myndir af málverkum höfundar, en Gunnar hefur haldið fjölda myndlistarsýninga hér á landi og erlendis. Ljóð hans, kvæði og lausavísur hafa víða birst í safnritum, tímaritum og blöðum en Höfuðstafur er hans fyrsta sjálfstæða bók. Það er bókaútgáfan Sæmundur sem gefur Höfuðstaf út.

Gunnar er nú kennari við Varmárskóla í Mosfellsbæ þar sem hann sinnir almennri kennslu grunnskólabarna. Oft hefur hann þó kennt valáfanga í bragfræði og ljóðagerð og kveðst halda því að nemendum sínum að tileinka sér kveðskap eftir megni. Sjálfur er hann virkur í starfi Kvæðamannafélagsins Iðunnar og Kvæðamannafélaginu Snorra í Reykholti þar sem hann gegnir nú formennsku. Félagar í Snorra koma saman reglulega yfir vetrartímann, kveða rímur, miðla fróðleik, segja sögur úr sveitinni og spjalla. Félagið heldur til að mynda árlega samkomu á Þorra sem fer fram í útihúsum. „Við vorum í fjósinu á Refsstöðum fyrsta árið en höfum í tvö síðustu skiptin verið í fjárhúsunum hjá Dagbjarti og Dísu í Hrísum. Sjálfur hef ég boðið hænsnakofa okkar hjóna í Melahverfinu undir þessar samkomur, en því fróma boði hefur verið hafnað sökum plássleysis. Nú erum við hjónin hins vegar að byggja fjörutíu fermetra stækkun við húsið okkar þar sem við hyggjumst koma okkur upp aðstöðu til listsköpunar og aldrei er að vita nema við getum hýst samkomu hjá Kvæðamannafélaginu Snorra þar þegar fram líða stundir,“ segir kennarinn, listamaðurinn og ljóðskáldið.

Að endingu er hér ljóð eftir Gunnar:

Æviferil ærlegan

aldrei skaltu trega.

Ekkert sýnist of né van

allt fer mátulega.

Líkar þetta

Fleiri fréttir