Körfuknattleiksþjálfarinn Francisco Garcia.

Francicso Garcia ráðinn yfirþjálfari yngri flokka

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við Spánverjann Francisco Garcia um að taka að sér yfirþjálfun yngri flokka hjá félaginu. Francisco mun halda utan um allt faglegt starf innan deildarinnar, bæði hvað varðar þróun leikmanna sem og þjálfara, ásamt því að sinna einstaklingsþjálfun og þjálfa yngri flokka Skallagríms. Samið var til Francisco til þriggja ára.

Francisco á að baki fjölbreyttan þjálfaraferil. Hann hefur þjálfað bæði meistaraflokka og yngri flokka í heimalandinu Spáni. Hann þjálfaði í fjögur ár í úrvalsdeild kvenna á Spáni og hefur einnig starfað sem þjálfari í Danmörku og Finnlandi. Auk þess hefur hann þjálfað landslið Indlands og U14 og U18 ára landslið kvenna á Spáni.

Á Facebook-síðu Skallagríms er haft eftir Francisco að hann sé spenntur að takast á við nýja áskorun. Hann hafi alltaf verið þeirrar skoðunar að styrkur hvers íþróttaliðs byggi á sterku yngri flokka starfi og hann muni reyna að leggja sitt af mörkum á þeim vettvangi. Hann sér fram á uppbyggingu í yngri flokka starfinu. Reynt verði að búa til leikmenn fyrir meistaraflokkslið Skallagríms. Slíkt muni kosta tíma, þolinmæði og vinnusemi.

Jafnframt er haft eftir Pálma Þór Sævarssyni, formanni yngri flokka ráðs Skallagríms, að hann sé ánægður með komu Franciscos til félagsins. Hann hafi kynnst Francisco ágætlega í gegnum árin og segir að þar fari léttur og skemmtilegur fír með mikla reynslu og ástríðu fyrir leiknum. „Það er gríðarlega stórt skref fyrir okkur að fá svona mann inn í yngri flokka starfið til lengri tíma og byggja ofan á þá flottu uppbyggingu sem verið hefur hjá okkur undanfarin ár,“ segir Pálmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir