Iðnaðarmönnum og fleirum sem komu að lagfæringum á húsnæðinu var boðið í veislu í morgun. Ljósmyndir Skessuhorn/mm

Vínbúðin flutt í nýtt húsnæði á Akranesi

Klukkan 11 í morgun var Vínbúðin á Akranesi opnuð í nýju húsnæði að Kalmansvöllum 1 og hefur gömlu búðinni við Þjóðbraut 13 verið lokað. Nýja verslunin er um 450 fermetrar að stærð og er öll aðstaða í henni betri en á fyrri stað. Meðal annars er stór kælir þannig að viðskiptavinir geta nú nálgast kaldan bjór, gosblöndur eða síder. Aðgengi að verslunni er sömuleiðis gott því næg bílastæði eru við húsið frá þeirri tíð að matvöruverslun Nettó og síðar Kaskó voru reknar þar. Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Vínbúðanna, segir í samtali við Skessuhorn að vöruúrval hafi nú verið aukið lítillega í versluninni á Akranesi, þá sérstaklega í bjór og kassavíni. Harpa Sif Þráinsdóttir verslunarstjóri er sömuleiðis mjög ánægð með flutning verslunarinnar og ekki síst með hönnun hennar og betri vinnuaðstæður starfsfólks. Nú er hægt að keyra vörubretti með t.d. bjór beint inn á kæli og lítið er geymt inn á lager því hillurými í versluninni er meira en á gamla staðnum.

Vínbúðin er nú í norðurenda hússins við Kalmansvelli 1.

Þær standa vaktina í Vínbúðinni á Akranesi. F.v. Helga Sigvaldadóttir, Harpa Sif Þráinsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Kristín Svafa Tómasdóttir og Sigurlaug Njarðardóttir.

Sigrún Ósk aðstoðarforstjóri Vínbúðanna og Harpa Sif Þráinsdóttir verslunarstjóri.

Lært á nýtt kassakerfi skömmu áður en verslunin var opnuð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir