Hótel Varmaland er nýtt 60 herbergja hótel í hjarta Borgarfjarðar

Nýjasta hótelið á Vesturlandi er á Varmalandi í Stafholtstungum í Borgarfirði, í húsi sem upphaflega var byggt undir starfsemi Húsmæðraskólans á Varmalandi sama ár og síðari heimsstyrjöldinni lauk. Á síðustu fimm árum hefur húsið verið stækkað og endurbætt fyrir hundruði milljóna króna. Skólahald í húsmæðraskólanum lagðist af seint á níunda áratugnum og eftir það var húsið í ýmissi tilfallandi notkun. Meðal annars var rekið þar sumarhótel og skólasel frá grunnskólanum á staðnum þegar nemendur voru þar flestir á uppgangsárum Háskólans á Bifröst. Árið 2015 seldi Borgarbyggð hús fyrrum húsmæðraskólans fyrirtækinu Iceland Incoming ehf. sem hóf í kjölfarið umfangsmiklar endurbætur og stækkun á húsinu. Grafið var út úr kjallarahæð, miklar breytingar gerðar á húsaskipan innanhúss og viðbygging byggð við enda hússins og hæð að hluta þar sem veislusal vantaði til að þjóna nýjum þörfum hótels. Þetta metnaðarfulla verkefni fór á endanum í þrot þegar breytingar voru vel á veg komnar. Keyptu núverandi eigendur, viðskiptafélagarnir Þórir Garðarsson og Sigurdór Sigurðsson hjá Grayline Iceland, húsin haustið 2018. Fengu þeir landslagsarkitekt til að hanna lóð umhverfis húsið. Lóðin var tekin niður, rúmgóð bílastæði gerð og aðkoman að húsinu þannig bætt. Á þeirra vegum er nú búið að ljúka framkvæmdum og búið að opna glæsilegt 60 herbergja heilsárshótel.

Blaðamaður Skessuhorns kíkti í síðustu viku í heimsókn á hótelið og ræddi við Helenu Vignisdóttur hótelstjóra. Hún er bjartsýn á hótel- og veitingarekstur á þessum stað. Hótelið sé vel í sveit sett, þar er kyrrlátt og fallegt, en þó stutt í allar áttir. Útsýni af nýjum veitingasal á þriðju hæð er stórbrotið þaðan sem fjallahringur héraðsins nýtur sín vel.

Sjá nánar frásögn og myndir í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir