Stykkishólmur séður úr Súgandisey.

Ferðaþjónusta hefur bætt lífsgæði og lífskjör

Í dag komu út skýrslur með niðurstöðum kannana á viðhorfum heimafólks til ferðamanna og ferðaþjónustu á fjórum áfangastöðum, Reykjanesbæ, Stykkishólmi, Húsavík og Egilsstöðum. Kannaðar voru bæði sértækar og staðbundnar áskoranir sem fylgja uppbyggingu ferðaþjónustu og móttöku ferðamanna á þessum stöðum.

Niðurstöður staðfesta að ferðamennskan hefur mikil áhrif á samfélag heimamanna en áhrifin eru nátengd staðbundnum einkennum hvers staðar. Heilt yfir var jákvæðni heimamanna nokkuð afgerandi og voru flestir þeirrar skoðunar að ferðamennska hefði bæði bætt lífsgæði og lífskjör í samfélaginu. Einhugur var um efnahagslegt mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir samfélögin og að ferðaþjónusta hafi bæði verið atvinnuskapandi og ýtt undir fjölbreytni í atvinnulífi. Á öllum stöðum hafði þjónustustig haldist hátt að mati heimamanna. Á öllum stöðunum kom fram að ferðaþjónusta hefði haft neikvæð áhrif á leigumarkað.

Stykkishólmur á sér langa sögu í ferðaþjónustu

Í skýrslunni um Stykkishólm kemur margt athyglisvert í ljós. Um 65% þeirra 235 þúsund erlendu ferðamanna sem komu í Stykkishólm árið 2018 komu á tímabilinu maí til september sem þýðir að árstíðasveifla í komum ferðamanna er minni í Stykkishólmi en víða annars staðar. Íbúar Stykkishólms urðu oftar en íbúar hinna svæðanna varir við ferðamenn, í miðbænum sáu þeir ferðamenn alla daga og æ oftar yfir veturinn. Talað um að um að árið 2016 hafi orðið sprenging í fjölda ferðamanna í bænum sem síðan hafi aðeins dregið úr. Flestum heimamönnum fannst fjöldi ferðamanna í bænum yfirleitt hæfilegur en fundu þó mest fyrir fjöldanum á sumrin af öllum svarendum könnunarinnar. Þetta er nokkuð ólíkt því sem fram kom í viðhorfum íbúa á Vesturlandi árið 2017 þar sem fram kom að Vestlendingar urðu sjaldnar en íbúar í öðrum landshlutum varir við ferðamenn og voru líklegastir til að finnast fjöldinn of lítill. Á því geta verið skýringar. Stykkishólmur á sér langa sögu um ferðaþjónustu sem spunnist hefur í kringum ferjusiglingar og gistingu og fyrir þær sakir er löng hefð fyrir komum ferðamanna í bæinn. Þá eru ótaldir innlendir ferðamenn sem að mati heimamanna hafa löngum verið áberandi í bænum.

Áhyggjur af stöðnum sem ferðaþjónustubær

Að mati heimamanna felst aðalaðdráttarafl bæjarins í náttúrufegurð Breiðafjarðar og gömlu húsunum í bænum sem heimamenn voru stoltir af. Þetta var í samræmi við svör ferðamanna í ferðavenjukönnun sem gerð var í Stykkishólmi sumarið 2018. Ferðamenn voru almennt ánægðir með dvölina í bænum, einkum með fegurð og umhverfi bæjarins, gestrisni bæjarbúa og staðsetningu. Hlutverk ferðaþjónustu í fjölskrúðugu atvinnulífi bæjarins var eitt meginstefa í niðurstöðunum í Stykkishólmi en auk þess voru heimamenn ánægðir með framboð þjónustu í bænum og mannlífið. Fjölbreytt atvinnulíf var talinn vera einn af stærstu kostum samfélagsins og væri afkoma heimamanna ekki háð afkomu einnar atvinnugreinar. Ákveðnar áhyggjur voru meðal heimamanna um að bærinn hefði mögulega staðnað sem ferðaþjónustubær á sama tíma og Snæfellsnes í krafti þjóðgarðs hefði eflst sem áfangastaður. Fram kom að auðvelt væri fyrir ferðamenn að fara í dagsferð um nesið frá höfuðborgarsvæðinu og að Stykkishólmur væri raunverulega úr leið með tilliti til Snæfellsnesshringsins. Viðmælendur töldu að efla þyrfti aðdráttarafl bæjarins en til þess þyrftu fyrirtæki og sveitarfélag að taka höndum saman. Fram kom að mörg ferðaþjónustufyrirtæki í bænum væru afar lítil. Mikil vinna hlaðist á fáar hendur í litlu samfélagi sem geti leitt til þess að batteríin klárist þrátt fyrir góðan ásetning.

Heimagisting á lagagráu svæði

Eitt einkenni Stykkishólms er að í hluta íbúaðarhúsa bæjarins er ekki föst búseta. Talað var um þau sem frístundahús í eigu utanbæjarfólks og eignir sem leigist að öllu leyti eða að hluta til ferðamanna. Auk þess eru einhverjir íbúar að skapa sér tekjur með því að bjóða upp á heimagistingu . Í viðtölunum kom fram að mikil aukning hefði orðið á slíkri gistingu fyrir ferðamenn. Í ferðavenjukönnuninni kom fram 22% svarenda hefði verið í einkagistingu í Stykkishólmi s.s. Airbnb. Í sumum tilfellum var slík ráðstöfun samfélagslega samþykkt, s.s. í tilfellum útleigu húsa til stéttarfélaga og þegar hús eru leigð í heilu lagi til ferðamanna. Það kom hins vegar skýrt fram að helstu árekstrar heimamanna og ferðaþjónustu tengdust ráðstöfun fasteigna með þessum hætti og að um viðkvæmt mál væri að ræða. Auk þess höfðu erfið mál um heimagistingu á lagalega gráu svæði valdið úlfúð í samfélaginu og haft neikvæð áhrif á búsetuskilyrði og lífgsæði íbúa. Kallað var eftir enn skýrari úrræðum fyrir heimamenn og auknu eftirliti af hálfu hins opinbera og í útgáfu leyfa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir