Stefna Ágústu Elínar gegn ríkinu verður tekin fyrir í dag

Aðalmeðferð í máli Ágústu Elínar Ingþórsdóttur, skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands, gegn íslenska ríkinu fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Ágústa stefndi ríkinu eftir að Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ákvað að auglýsa starf hennar laust til umsóknar án þess að hafa tilkynnt henni um fyrirætlanir sínar um auglýsinguna á réttan hátt innan tilskilins tímaramma, eins og lög um opinbera starfsmenn segja til um. Fréttavefur RUV greinir frá því í morgun að í svari við fyrirspurn sem fréttastofa sendi mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir helgi komi fram að ráðuneytið vinni að því í samvinnu við Kennarasamband Íslands og Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, að leysa úr vanda er tengist stofnanasamningi Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Ráðningaferli vegna skipunar skólameistara við skólann sé í fullum gangi. Forsætisráðherra fól Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að skipa í stöðu skólameistara, eftir að menntamálaráðherra gaf málið frá sér vegna fyrrgreindrar stefnu skólameistara FVA á hendur ráðherra.

Sjá frétt ruv.is um málið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir