Raunlækkun fasteignaskatts á fyrirtæki

Álagningaprósenta á atvinnuhúsnæði á Akranesi verður lækkuð frá næstu áramótum, verður 1,4% í stað 1,5804% áður. Þetta er meðal þess sem kom fram þegar fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2020 var til fyrri umræðu í bæjarstjórn á fundi í gær. „Þetta felur í sér raunlækkun fasteignaskatta og lækkun tekna Akraneskaupstaðar því fasteignamat er að hækka lítið í atvinnulóðum. Við erum jafnframt að lækka lóðarleigu til fyrirtækja um 5,22%,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri um málið á Facebook-síðu sinni. „Akraneskaupstaður sýnir með þessu í verki að við forgangsröðum í þágu atvinnuuppbyggingar og viljum stuðla að hagfelldu umhverfi fyrir fyrirtæki,“ segir Sævar.

Álagningarprósenta vegna íbúðarhúsnæðis verður einnig lækkuð, úr 0,2865% í 0,2407%, að því er fram kemur kynningu bæjarstjóra fyrir fyrri umræðu um fjárhagsáætlun.

Álagt útsvar verður óbreytt, 14,52% sem er hámarksútsvar. Sorphreinsunargjald og sorpeyðingargjald verður óbreytt en lóðarleiga af nýjum og endurnýjuðum samningum lækkar frá fyrra ári. Lóðarleiga verður 0,3034% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða og 1,199% af fasteignamatsverði atvinnulóða.

Fram kemur í kynningu bæjarstjóra að rekstrarafkoma samstæðu bæjarsjóðs sé áætluð 331 milljón króna á næsta ári. Þá má geta þess að útkomuspá gerir ráð fyrir að rekstrarafkoma ársins 2019 verði tæpar 526 milljónir króna. Fjárhagsáætlun næstu ára gerir ráð fyrir því að rekstrarafkoma lækki árin 2020 til 2022, en aukist að nýju á árinu 2023.

Bæjarstjórn samþykkti að vísa fjárhagsáætlun ársins 2020 og þriggja ára áætlun 2021-2023, sem og þeim tillögum sem henni fylgja, til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir