Linda Helgadóttir og Erla Sigurbjörnsdóttir. Ljósm. kgk.

„Okkur er haldið í heljargreipum“

Eins og áður hefur verið greint frá í Skessuhorni var starfsfólki Ísfisks, rúmlega 40 manns, sagt upp störfum 30. september síðastliðinn. Síðan þá hefur verið unnið að því að bjarga fjárhag fyrirtækisins svo það geti hafið starfsemi að nýju. En á meðan situr starfsfólkið heima með sárt ennið. Það hefur ekki fengið greidd laun fyrir september og október, utan 50 þúsund króna greiðslu upp í laun septembermánaðar.

Fiskverkakonurnar Erla Sigurbjörnsdóttir og Linda Helgadóttir eru meðal þeirra sem var sagt upp störfum hjá fyrirtækinu í lok september. Þær segja stöðu starfsfólksins mjög erfiða og upplifa vonleysi og nagandi óvissu. „Þegar okkur var sagt upp mánudaginn 30. september var okkur tjáð að launin yrðu greidd strax 1. október, eða daginn eftir. Þau yrðu allavega alltaf komin fyrir næstu helgi,“ segja Erla og Linda í samtali við Skessuhorn. „Síðan þá hefur okkur verið haldið í algerri óvissu. Því hefur ítrekað verið lofað að við fáum borgað þennan dag eða hinn og að málin skýrist á næstu dögum eða vikum. Síðan gerist bara ekkert og aldrei fáum við að vita neitt,“ segja þær.

Eiga varla fyrir mat

Það er auðheyrt á þeim Erlu og Lindu að undanfarnir mánuðir hafi verið þeim erfiðir. Nú segja þær svo komið að þær eigi varla fyrir mat. „Ég er farin að leita til vina og vandamanna, sem er ekki skemmtileg staða. Við fengum stuðning frá Akraneskaupstað, lán sem við þurfum ekki að greiða til baka fyrr en við fáum laun greidd frá fyrirtækinu. Sá peningur fór allur í húsaleigu hjá mér,“ segir Erla. „Ég lifi á VISA og yfirdrætti. Ég sé fram á að verða næstu tvö árin að komast út úr kreditkortaskuldinni. En ég á ekki annarra kosta völ,“ segir Linda. „Maður situr um mat á síðasta söludegi á 99 krónur í Krónunni, brauð og annað til að setja í frystinn og taka svo út eina og eina sneið. Stundum elda ég bara fyrir strákana en sleppi því að borða sjálf,“ segir Erla, sem er einstæð móðir tveggja drengja. „Ég er farin að sleppa því oft að borða. Maður lifir bara á kaffi, þangað til maður fær verk í magann og finnur að maður verður líklega að borða eitthvað,“ segir Linda. Hún á einn uppkominn son, sem aðstoðar móður sína eins og hann hefur tök á. „Þetta er búið að vera rosalega erfitt,“ bætir hún við og Erla tekur undir með henni.

En þær stöllur segja að þeirra aðstæður séu langt því frá að vera einsdæmi. Þvert á móti telja þær hana nokkuð dæmigerða fyrir starfsfólk fyrirtækisins. „Það eru allir í rosalega erfiðri stöðu,“ segja þær. „Stór hluti starfsfólks hefur verið að ræða saman um stöðu mála frá því okkur var sagt upp. Margir eiga orðið býsna erfitt. Auðvitað hefur verið misjafnlega erfitt fyrir fólk að komast af, því staða fólks var misjöfn fyrir. En það sér hver heilvita maður að það fer allt á hvolf í heimilisbókhaldinu ef allt í einu vantar tvenn mánaðarlaun,“ segja þær.

„Algerlega vonlaus staða“

Báðar hafa þær skráð sig á atvinnuleysisskrá, en þær öðlast ekki rétt til atvinnuleysisbóta fyrr en 1. desember næstkomandi. Ástæðan er sú að uppsagnarfrestur er ekki liðinn og fyrirtækið hefur ekki verið lýst gjaldþrota. Fyrirtækinu ber að greiða þeim laun út uppsagnarfrestinn, en það hefur ekki verið gert og á meðan sú staða er uppi er starfsfólkið í lausu lofti til 1. desember. Þá sjá Erla og Linda loksins fram á að fá pening fyrir helstu nauðsynjum. „Þetta er algerlega vonlaus staða. Ég held að enginn geti gert sér grein fyrir því sem ekki hefur upplifað það; að vera launalaus í svona langan tíma og lifa í algerri óvissu um það hvort eða hvenær við fáum greidd launin okkar,“ segir Linda. „Okkur er haldið í heljargreipum,“ segir Linda. „Okkur er gefin fölsk von, lofað að þennan eða hinn daginn skýrist málin, en svo gerist ekkert. Öll svör við okkar fyrirspurnum eru grá og loðin og við fáum ekki að vita neitt, erum algerlega í lausu lofti,“ segja þær. „Ef ekkert breytist fáum við atvinnuleysisbætur 1. desember, en það eru 20 dagar í það. Við verðum að reyna að þrauka þangað til. En þetta er mjög erfitt, við upplifum mikið vonleysi og þykir vægast sagt illa farið með okkur starfsfólkið að setja okkur í þessa vonlausu stöðu. Þetta er ömurlegt í alla staði,“ segja Erla og Linda að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir