Sýknaður af árás á fyrrverandi kærustu

Karlmaður sem ákærður var fyrir að ráðast á fyrrverandi kærustu sína í maí í fyrra var sýknaður í Héraðsdómi Vesturlands á föstudag. Manninum var gefið að sök að hafa ýtt konunni niður stiga, rifið í hár hennar og skellt henni í vegg, skallað hana í höfuðið og tekið hana hálstaki. Konan hafi við það hlotið mar og yfirborðsáverka á hálsi, mar á brjóstkassa og hægri öxl, upphandlegg og olnboga. Auk þess hrufl á hægra hné, mar á innanverðu vinstra hné og marbletti á il og vinstri fæti.

Karlmaðurinn tjáði sig ekki um sakargiftir né svaraði einstökum spurningum, bæði við rannsókn lögreglu og fyrir dómi. Framburður konunnar lá því einn til grundvallar við úrlausn málsins.

Fyrir dómi sagði konan að maðurinn hefði ýtt á bakið á henni með þeim afleiðingu að hún féll fram fyrir sig niður stiga fyrir framan íbúð sína. Þar hefði hann komið að henni og tekið hálstaki uppi við vegginn. Hún hafi losnað undan takinu með því að pota í augað á honum, en síðan hlaupið af stað upp stigann. Þar hafi hann náð taki á hári hennar og togað hana í gólfið. Þegar hún hafi staðið upp hefði hún skallað hann í höfuðið, en dómurinn tók tillit til þess að hún hefði líklega átt við að hann hefði skallað hana. Þá hafi konan reynt að fela sig og finna síma til að hringja á lögreglu. Þá hafi maðurinn gripið í hana og hrist hana, en hún náð að rífa sig lausa og hlaupa upp til nágranna síns og banka þar ítrekað á dyrnar.

Dómstóllinn mat framburð konunnar trúverðugan en sagði ekki hægt að líta framhjá því að í honum gætti nokkurs ósamræmis frá fyrri framburði hennar hjá lögreglu; „sem aftur rýrir óhjákvæmilega trúverðugleika hans og sönnunargildi,“ eins og segir í dómnum. „Þar sem framburður hennar fær ekki stuðning af öðrum gögnum en vottorði læknis um þá áverka sem greindust á henni þykir, gegn neitun ákærða, ekki komin fram nægileg sönnun, sem ekki verði véfengd með skynsamlegum rökum,“ segir í dómnum. Maðurinn var því sýknaður og skaðabótakröfu konunnar vísað frá. Sakarkostnaður vegna málsins greiðist úr ríkissjóði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir