Fulltrúar Skagans 3X og skoska fyrirtækisins Denholm Seafoods á meðan prófanir á nýju dælunni stóðu yfir síðastliðið sumar. Ljósm. Skaginn 3X.

Selja nýja gerð af dælu til Skotlands

Skoska sjávarútvegsfyrirtækið Denholm Seafoods hefur skrifað undir kaup á 16 tommu ValuePump dælu frá Skaganum 3X, eftir nokkurra mánaða rannsóknar- og þróunarvinnu sem fyrirtækin stóðu saman að. Um er að ræða dælu sem afkastar allt að 60 tonnum af uppsjávarfiski á klukkustund og getur dælt hráefni allt að tíu metra upp á við, að því er fram kemur í tilkynningu frá Skaganum 3X. Flytur dælan hráefnið um 200 metra frá höfninni og að vinnslu Denholm í gegnum 16 tommu rör.

Að sögn Ragnars Arnbjarnar Guðmundssonar, svæðissölustjóra Skagans 3X, fer nýjasta gerð dælunnar einstaklega vel með hráefnið á meðan flutningi stendur. Þá krefst hún enn fremur minni orku en aðrar dælulausnir. „Einnig mun hún leysa af flutningabíla sem hafa verið notaðir til að ferja hráefni frá höfn og inn í vinnsluhús, sem gerir þessa vinnslu umhverfisvæna fyrir viðskiptavin okkar,“ segir Ragnar.

Dælan hefur verið framleidd í ýmsum formum hjá Skaganum 3X síðan 1994, en á síðasta ári hóf fyrirtækið rannsóknir og prófanir á nýrri og bættri útgáfu. Nýjasta útgáfan flytur hráefni í gegnum lokað lágþrýstilagnakerfi með lofti og vökva. Mögulegt er að bæta við vökvahringrás, krapakerfi, varmaskiptum, pækilkerfi og fleiru til að auka virðisauka hráefnis. Nýja dælan er ekki útbúin hefðbundinni skrúfu heldur snýst hún öll og við það færist vökvinn og hráefnið í gegnum hana.

Líkar þetta

Fleiri fréttir