Karen í stjórn Samtaka smáframleiðenda matvæla

Samtök smáframleiðenda matvæla voru stofnuð á fundi sem fram fór á Hótel Sögu þriðjudaginn 5. nóvember síðastliðinn. Karen Jónsdóttir á Akranesi, eigandi Kaju organic, Matarbúrs Kaju og Café Kaja, var kjörin í stjórn en auk hennar sitja í stjórn Guðný Harðardóttir, Svava Hrönn Guðmundsdóttir, Þórhildur M. Jónsdóttir og Þröstur Heiðar Erlingsson.

Markmið samtakanna er að stuðla að öflugra samstarfi og auknum samtakamætti smáframleiðenda matvæla um allt land. Einnig að stuðla að nýsköpun og fjölbreyttu úrvali hágæða matvæla, með áherslu á notkun innlendra háefna, aukinn fjölbreytileika og verðmætasköpun, þróun nýrra og verðmætari vara og þjónustu úr vannýttum hráefnum. Sömuleiðis að draga úr kolefnisspori, auka sjálfbærni og auka atvinnutækifærum.

Samtökunum er ætlað að framfylgja hagsmunamálum smáframleiðenda á öllum sviðum, vera málsvari þeirra og stuðla að framförum í málefnum er varða smáframleiðendur. Þar með talið þegar kemur að vexti og aðgengi að mörkuðum, lágmörkun kolefnisspors og samfélgslegum áhrifum. Einnig að vinna að því að starfsumhverfi og löggjöf um smáframleiðslu gefi þeim færi á að blómstra, sem og að leiðbeina félagsmönnum, skipuleggja viðburði og kynna félaga það úrval sem boðið er upp á.

Líkar þetta

Fleiri fréttir