Kríuból á Hellissandi er önnur tveggja starfsstöðva Leikskóla Snæfellsbæjar. Þar hefur nú verið opnuð ungbarnastofa. Ljósm. úr safni/ kj.

Ungbarnastofa opnuð á Kríubóli á Hellissandi

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti á síðasta fundi sínum samhljóða að komið yrði á fót svokallaðri ungbarnastofu á leikskólanum Kríubóli á Hellissandi, sem er önnur tveggja starfsstöðva Leikskóla Snæfellsbæjar. „Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem 12 til 18 mánaða börnum er boðin skólavist. Verkefnið hófst strax 14. október, mánudaginn eftir að bæjarstjórn afgreiddi málið á fundi sínum. Þá voru börn á biðlista tekinn inn á Kríuból,“ segir Lilja Ólafsdóttir bæjarritari og Kristinn Jónasson bæjarstjóri skýtur því að í samtali við blaðamann að með tilkomu ungbarnastofunnar séu nú þrír valkostir sem nýbökuðum foreldrum í Snæfellsbæ standa til boða. „Foreldrar 9 til 18 mánaða barna geta sótt um svokallaðar heimgreiðslur frá sveitarfélaginu eftir að fæðingarorlofi lýkur og þar til barn fær innritun á leikskóla. Síðan eru í boði niðurgreiðslur fyrir þá sem vilja gerast dagforeldrar og svo bætist þessi lausn, ungbarnaleikskólinn, við sem valkostur núna,“ segir Kristinn Jónasson bæjarstjóri. „Með þessu er ætlunin fyrst og fremst að reyna að koma til móts við foreldra ungra barna og þar með reyna að gera samfélagið okkar ennþá meira heillandi fyrir barnafólk,“ bætir hann við og Lilja tekur undir með honum.

Sem fyrr segir er um tilraunaverkefni að ræða sem þegar er hafið. Ætlunin er að sjá hvernig til tekst en Kristinn og Lilja segja ljóst að ungbarnastofa verði aðeins starfrækt á Hellissandi. „Við ætlum að sjá hvort við ráðum ekki örugglega við þetta verkefni, sem við teljum okkur auðvitað gera og hvað þarf síðan til að þróa verkefnið áfram. Þetta er nefnilega meira en að segja það. Börnin eru eins misjöfn og þau eru mörg og eins árs gamalt barn er ekkert það sama og eins árs gamalt barn,“ segja þau. „Við viljum geta haldið eins vel utan um þetta verkefni og mögulegt er og þess vegna ákváðum við að það verði aðeins starfrækt ungbarnastofa á annarri starfsstöð Leikskóla Snæfellsbæjar,“ segja þau Kristinn og Lilja að endingu.

Fer vel af stað

Ingigerður Stefánsdóttir leikskólastjóri segir að með ungbarnastofu sé reynt að koma til móts við þarfir foreldra sem þurfa að snúa aftur til vinnu þegar fæðingarorlofi lýkur, enda misjafnt hvað hentar hverri og einni fjölskyldu. Hún segir verkefnið hafa gengið mjög vel þessar fyrstu þrjár vikur sem liðnar eru síðan því var ýtt úr vör. „Strax voru tekin inn tvö börn og hefur það gengið mjög vel. Þau eru mjög afslöppuð hjá okkur, fá ró og næði og ég er mjög bjartsýn á framhaldið,“ segir Ingigerður. „Á ungbarnastofunni aðlögum við okkur að þörfum barnanna. Þau borða til að mynda fyrr en önnur börn, fá hádegismatinn korter í 11, fara fyrr að sofa en hin börnin á leikskólanum því þau þurfa lengri svefn og fleira í þeim dúr,“ segir leikskólastjórinn. „Þegar börnin hafa síðan náð 18 mánaða aldri geta foreldrarnir valið hvort börnin fara inn á starfsstöðvarnar annað hvort í Ólafsvík eða á Hellissandi,“ bætir hún við.

Ingigerður segir að fyrst um sinn verði hægt að taka við sjö börnum á ungbarnastofuna, en þar starfa tveir starfsmenn. „Við förum rólega af stað, aðlögum okkur að þörfum hvers barns og sjáum hvernig gengur. Ég er mjög bjartsýn og held að þetta verði voða skemmtilegt,“ segir Ingigerður að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir