Sáttasemjari ráðinn til að miðla málum

Sérstakur ráðgjafi og sáttasemjari hefur verið ráðinn til að miðla málum milli kennara og skólastjóra Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Þetta kemur fram á vef Kennarasambands Íslands. Þar var greint frá því fyrir helgi að kennarar við FVA hafi hafnað samstarfi við núverandi skólameistara og myndu eingöngu sinna kennsluskyldum og samstarfi við nemendur þar til nýr skólameistari hefur verið skipaður, eins og félagsfundur Kennarafélags FVA ályktaði um 21. október síðastliðinn. Áður höfðu kennararnir lýst vantrausti á núverandi skólameistara, eins og áður hefur verið greint frá í Skessuhorni.

Í frétt á vef KÍ kemur fram að Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara og Ægir Karl Ægisson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum, fagna því að nú hafi verið ráðinn sáttasemjari til að miðla málum. Sömuleiðis hrósa þeir kennurum, stjórnendum og skólameistara skólans fyrir að halda fagmennsku í forgrunni og gera nú aftur atlögu að samningum eftir erfiðar deilur. „Um leið og formenn vona innilega að góður árangur hljótist af sáttaumleitunum ber líka að fagna því að líklega fer óvissu um stjórnun skólans á næsta skipunartímabili skólameistara að ljúka,“ segir á vef KÍ, en viðtöl við umsækjendur um stöðu skólameistara eru hafin. Það hljóti því að skýrast fljótlega hver verði næsti skólameistari FVA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir