Reykholt í Borgarfirði. Ljósm. Guðlaugur Óskarsson.

Norræn bókmenntavika og Dagur íslenskrar tungu í Snorrastofu

Snorrastofa hefur um árabil tekið áskorun norrænu félaganna um að halda Norræna bókmenntaviku um miðjan nóvember og leggjast þannig á árar við að efla lestrargleði og breiða út norrænar bókmenntir. Áður fyrr var vikan á hendi bókasafna um öll Norðurlönd og vikan 11.-17. nóvember næstkomandi verður nú tileinkuð ofangreindu markmiði í 23. sinn.

Um öll Norðurlönd verður efnt til sögustunda og skyldra viðburða þar sem meðal annars er lesið úr sömu verkum alls staðar. Vikan hefst í Snorrastofu með sögustund fyrir yngstu kynslóðina í bókhlöðunni, mánudagsmorguninn 11. nóvember kl. 10. Þangað er yngstu nemendum af Kleppjárnsreykjum og þeim elstu af Hnoðrabóli boðið til að hlýða á sögu Astrid Lindgren, í anda veisluþema vikunnar, af afmælisveislu Línu langsokks. Eftir lestur Þórunnar Reykdal eiga börnin notalega stund á safninu, tjá sig með teikningu og skoða sig um. Hönnubúð í Reykholti býður hressingu.

Af öðrum tiltækjum vikunnar má geta um gesti vikunnar, hjónin Kristínu Gísladóttur og Sigurbjörn Aðalsteinsson, rithöfunda og kvikmyndagerðarfólk í Los Angeles sem dvelja í gestaíbúð Snorrastofu. Þau segja frá verkum sínum og viðfangsefnum í Prjóna-bóka-kaffinu og eiga einnig stefnumót við eldri nemendur Grunnskóla Borgarfjarðar í vikunni. Þau hjónin vinna um þessar mundir að bókaröð sem tengist íslenskri arfleifð, norrænni goðafræði, Íslandssögu og þjóðsögunum. Á íslensku bera bækurnar yfirheitið Dagbjartur Skuggi og útlagarnir og fjalla um líf ungs drengs á Íslandi um aldamótin 1900. Dagbjartur elst upp við óvenjulegar aðstæður þar sem fjölskylda hans hefur verið gerð útlæg úr byggð og helst við í helli uppi á hálendi.  Inntak vikunnar tengist ánægjulega Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og það er Snorrastofu metnaðarmál að veita með starfi sínu innblástur og hvatningu til að hlúa að gildum þess merkisdags, sem ekki þarf að fjölyrða um.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.