Aðalheiður og Albína eftir að styttunni hafði verið komið fyrir á stallinum. Ljósm. þa.

Styttan Jöklarar er komin að nýju á stall sinn

Styttan Jöklarar, minnisvarði um drukknaða sjómenn, hefur sett svip sinn á Sjómannagarðinn á Hellissandi frá því hún var sett upp árið 1974. Styttan sem er eftir Ragnar Kjartansson er eitt elsta verk eftir listamanninn. Var hún fyrir rúmu ári síðan send í bronsun til Þýskalands til fyrirtækis sem nefnist Kollinger þar sem hún var farin að skemmast að utan. Það er Slysavarnadeildin Helga Bárðardóttir sem á styttuna og þær Aðalheiður Aðalsteinsdóttir og Albína Gunnarsdóttir tóku á móti styttunni síðastliðinn föstudag og fylgdust með því þegar Árni Jón Þorgeirsson kom henni fyrir á stalli sínum í Sjómannagarðinum.

Þær Aðalheiður og Albína hafa borið hita og þunga af því að koma styttunni í viðgerð og flutning hennar heim aftur. Voru þær því að vonum glaðar þegar styttan var sett á sinn stað í fallegu vetrarveðri um liðna helgi. Vildu þær koma á framfæri kæru þakklæti til þeirra fyrirtækja sem studdu slysavarnadeildina í þessu verkefni því án þeirra hefði þetta aldrei verið hægt. En bæði er tímafrekt og dýrt er að senda svona listaverk um langan veg. Kostnaður er kominn í tæpar átta milljónir króna. Enn er tekið á móti styrkjum til verkefnisins og hægt að leggja inn á reikning: 0190-15-380046 kt. 661090-2009.

Eins og áður sagði sá Þorgeir ehf. um að koma styttunni á sinn stað, Ragnar og Ásgeir sáu um að flytja styttuna í skip í Reykjavík og til baka aftur án endurgjalds. Aðrir sem studdu slysavarnadeildina Helgu Bárðurdóttur voru: Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Snæfellsbær, Guðmundur Kristjánsson, Nónvaða, Kristinn J. Friðþjófsson, Baldur Jónsson, Auður Grímsdóttir, Apótek Ólafsvíkur, Skarðsvík, Sandbrún, Breiðavík, Litlalón, Útnes Hjallasandur, KG fiskverkun, Þorgeir ehf. og Frakt flutningsmiðlun.

Líkar þetta

Fleiri fréttir