Edit Ómarsdóttir (fyrir miðju) ásamt þeim Helgu Margréti Ólafsdóttur (t.v.) og Hafdísi Sæland (t.h.). Þær fengu verðlaun fyrir bestu stafrænu lausnina í frumkvöðlakeppninni Gullegginu.

Smíðuðu dómsal í sýndarveruleika

Frumkvöðlakeppninni Gullegginu lauk með verðlaunaafhendingu 25. október síðastliðinn. Þar gerði teymið Statum sér lítið fyrir og hreppti verðlaun fyrir bestu stafrænu lausnina. Teymið skipa Vestlendingurinn Edit Ómarsdóttir, ásamt þeim Hafdísi Sæland og Helgu Margréti Ólafsdóttur. Þær útbjuggu dómsal í sýndarveruleika, sem ætlaður er þolendum kynferðisofbeldis. Þar geta þolendur stigið inn í sýndarveruleikann ásamt fagaðila og æft sig í aðstæðum sem minna á raunveruleikann. Hefur slíkt hvergi verið gert í heiminum áður, eftir því sem best er vitað. Edit segir að hugmyndin hafi kviknað þegar þær unnu að lokaverkefni til B.S. gráðu í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. „Okkur langaði að gera eitthvað í samstarfi við lögregluna en jafnframt í sýndarveruleika. Við fórum því á fund með Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og með þeim fundum við út að þörfin væri mest hjá þolendum kynferðisofbeldis. Upp frá því fór boltinn að rúlla. Næst funduðum við með dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, vorum áfram í samskiptum við lögreglu og sálfræðinga til að athuga hvort einhver grundvöllur væri fyrir þessari hugmynd og hvort þeir teldu að hún myndi virka,“ segir Edit í samtali við Skessuhorn. „Alls staðar var mjög vel tekið í hugmyndina,“ segir hún ánægð.

Nánar er sagt frá verkefni þeirra í Skessuhorni vikunnar.

Sýndarveruleikinn er ekki aðeins dómssalurinn sjálfur, heldur eru þar sýndarverur sem bregðast við hreyfingum notandans og fleiru.

Líkar þetta

Fleiri fréttir