Hlutverk Framleiðnisjóðs hefur verið að veita styrki og lán til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði. Nú verður sjóðurinn lagður niður samkvæmt frumvarpi ráðherra.

Framleiðnisjóður og AVS rannsóknarsjóður lagðir niður

Ráðherra lét þung orð falla á Alþingi í garð Framleiðnisjóðs

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem felur í sér breytingu á ýmsum lögum á sviði matvæla. Fyrsta umræða um frumvarpið fór fram á mánudaginn og hefur málinu verið vísað til atvinnuveganefndar. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að inn í lög um matvæli komi nýr kafli þar sem kveðið er á um stofnun nýs Matvælasjóðs. Í greinagerð kemur fram að í tengslum við stofnun nýs Matvælasjóðs verði Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS-rannsóknarsjóður, um aukið verðmæti sjávarfangs, lagðir niður og að fjárveitingar ríkisins til þessara sjóða renni frá og með árinu 2021 til nýs Matvælasjóðs.

Þung orð í garð Framleiðnisjóðs

Eftir að hafa lagt frumvarpið fram lét Kristján Þór Júlíusson þung orð falla í andsvörum ráðherra á þingi mánudaginn 4. nóvember síðastliðinn. Hann sagði m.a.: „Það kann vel að vera að það sé andstaða við þetta [stofnun nýs Matvælasjóðs] hjá bændum, en ég átti mig ekki á hvaða drauga sumir hverjir eru að reyna að draga hér upp á veggi. Væntanlega þeir sem vilja þá sitja að sínu, sem þeir hafa fengið úr Framleiðnisjóði, en ég hvet alla sem ég á þessi orðaskipti við að kynna sér úthlutanir úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Þær eru ærið skrautlegar og ég hef grun um það að það sé ekki allt þar eins og menn ætluðu,“ sagði Kristján Þór í umræðum á Alþingi 4. nóvember síðastliðinn.

Trúnaðarbrestur

Í framhaldi af þessum ummælum ráðherra sá Stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins sig knúna til að senda frá sér yfirlýsingu. Þar eru orð ráðherra fordæmd harðlega og sagt að um trúnaðarbrest sé að ræða. Hlutverk Framleiðnisjóðs er að veita styrki og lán til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði. Elín Aradóttir á Hólabaki í A-Húnavatnssýslu er formaður stjórnar Framleiðnisjóðs. Hún segir m.a. í yfirlýsingu sinni: „Framleiðnisjóður er sjálfstæð ríkisstofnun sem starfar eftir lögum frá 1966. Landbúnaðarráðherra skipar sjóðnum fimm manna stjórn til fjögurra ára í senn. Stjórn Framleiðnisjóðs úthlutar styrkjum úr sjóðnum. Stjórn sjóðsins telur að unnið hafi verið í einu og öllu eftir þeirri lagaumgjörð sem sjóðnum er sett. Vandað hafi verið til allrar umsýslu í starfi hans og viðhöfð fyllsta varkárni í rekstri. Umsóknir til sjóðsins eru á stöðluðu formi, þær eru metnar og þeim forgangsraðað á kerfisbundinn hátt,“ skrifar Elín og bætir við að á ári hverju gefi Framleiðnisjóður út vandaða ársskýrslu þar sem gerð er grein fyrir öllum styrkveitingum og starfi sjóðsins í samstarfi við Ríkisendurskoðun sem hefur endurskoðað reikninga sjóðsins án athugasemda.

„Í ljósi þessa sem hér hefur verið rakið vekur það furðu að ráðherra láti ummæli þessi falla og telur stjórn að hér sé að ósekju vegið að fagmennsku stjórnenda sjóðsins. Fullyrðingar ráðherra eru ekki rökstuddar á neinn hátt og ekki til þess fallnar að gefa rétta mynd af starfi sjóðsins. Stjórn Framleiðnisjóðs vill jafnframt benda á að orð ráðherra verði vart túlkuð á annan hátt en svo að hann beri ekki traust til Framleiðnisjóðs sem stofnunar. Hér verður að hafa í huga að stjórn Framleiðnisjóðs er skipuð af Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í ljósi þess að ráðherra hefur ekki komið á framfæri við sjóðstjórn umkvörtunum af neinu tagi, telur sjóðsstjórn að hér sé um trúnaðarbrest að ræða,“ skrifar Elín Aradóttir formaður fyrir hönd stjórnar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir