Enn lækka stýrivextir

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósent. Meginvextir, vextir á sjö daga bundnum innlánum sem jafnan eru kallaðir stýrivextir, verða því 3% eftir lækkunina. Er þetta fimmta vaxtalækkunin frá því í maímánuði á þessu ári.

Hagvaxtarhorfur á seinni hluta árs hafa versnað frá því sem spáð var í ágúst. Hagvöxtur á fyrri hluta var hins vegar meiri en spáð var og því er gert ráð fyrir 0,2% samdrætti á árinu öllu. Horfur næsta árs hafa einnig versnað og er nú spáð 1,6% hagvexti.

Verðbólga hefur verið í kringum 3% frá því á vormánuðum en en mældist 2,8% í október. Horfur eru á að verðbólga hjaðni hraðar en spáð var í ágúst og að hún verði komin undir verðbólgumarkmiðið í lok árs. Verðbólguvæntingar lækka áfram og eru við markmið.

„Vextir bankans hafa verið lækkaðir um 1,5 prósentur frá því í vor og eiga áhrif þess enn eftir að koma fram að fullu,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun.

Líkar þetta

Fleiri fréttir