Páll leikur hér á flautu úr rabarbarastönglum. Ljósm. Gunnlaugur A Júlíusson.

Einstakur viðburður í Reykholtskirkju

Síðastliðið laugardagskvöld voru hátíðartónleikar í Reykholtskirkju til heiðurs Páli Guðmundssyni listamanni á Húsafelli. Kammerkór Suðurlands undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar og Reykholtskórinn undir stjórn Viðars Guðmundssonar fluttu þar hljóðmyndir Páls, „Hjartað í fjallinu“, auk nokkurra annarra verka. Hluti efnisskrárinnar hafði verið fluttur í Hafnarborg fyrr á þessu ári. Heiti tónleikanna var sótt í kvæði Sigurðar Pálssonar skálds um Pál. Sjálfur lék Páll með auk fleiri listamanna og þá á hljóðfæri sem Páll hefur ýmist smíðað eða gengið fram á í umhverfi sínu, bæði úr jurta- og steinaríki, sumum þarna beitt í fyrsta sinn opinberlega. Í vönduðum útsetningum runnu hljóðmyndir Pál við texta ýmissa skálda saman í firna áhrifamikla og fallega heild; hluti hljóðmyndanna var frumfluttur. Í því góða tónleikahúsi sem Reykholtskirkja er var líka óneitanlega notalegt að heyra verk eftir sjálfan Bach (Bourrée í E-moll) leikið á steinaspil og rabarbaraflautu úr hráefnum frá Húsafelli. Tónleikunum lauk sem músíkalskri fjöldasamkomu þar sem báðir kórarnir við meðleik allra hljóðfæraleikaranna fluttu Norðurljós, verk Páls við ljóð Einars Benediktssonar, tónverk sem frumflutt var á Listahátíð 2014.

Með tónleikunum í Reykholti fengum við enn að kynnast nýrri hlið á hinum fjölhæfa listamanni, Páli Guðmundssyni á Húsafelli.  Tónleikarnir urðu að dýrlegri stund; eiginlega viðburði. Verða án efa með þeim eftirminnilegri sem hljómað hafa í Reykholtskirkju. Kirkjan var fullsetin áheyrendum sem þökkuðu Páli og flytjendum innilega að loknum tónleikum.

-Bjarni Guðmundsson

Líkar þetta

Fleiri fréttir

21 smit í gær

Alls greindist 21 innanlandssmit Covid-19 faraldursins í gær (fimmtudag). Sjö þeirra sem greindust voru í sóttkví við greiningu, en 14... Lesa meira