Hús í reisingu á Akranesi í sumar.

Lagðar til breytingar á almenna íbúðakerfinu

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra talaði í síðustu viku fyrir frumvarpi á Alþingi um breytingu á lögum um almennar íbúðir. Þar eru lagðar til breytingar sem sníða af agnúa sem í ljós komu eftir gildistöku nýrra laga um almennar íbúðir frá 15. júní 2016. Breytingunni nú er ætlað að ná betur því markmiði að bæta húsnæðisöryggi og lækka húsnæðiskostnað tekju- og eignalágra leigjenda. Í frumvarpinu er lögð til hækkun á tekju- og eignamörkum leigjenda almennra íbúða þannig að hærra hlutfall landsmanna eigi kost á almennum íbúðum. Þá er lagt til að unnt verði að veita sérstakt byggðaframlag til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum á svæðum þar sem verulegur skortur er á leiguhúsnæði og misvægi er á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis. Lagt er til grundvallar að sérstakt byggðaframlag standi einungis til boða sveitarfélögum, félögum, þar með talið húsnæðissjálfseignarstofnunum, og félagasamtökum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það sem langtímamarkmið að eiga og hafa umsjón með rekstri leiguíbúða.

Þá eru í frumvarpinu einnig lagðar til ýmsar breytingar til að lækka fjármagnskostnað stofnframlagshafa. Lagt er til að við mat umsókna um stofnframlög hjá Íbúðalánasjóði verði veitt heimild til að líta til almenningssamgangna á viðkomandi svæði í því skyni að umsóknum um stofnframlög sem varða verkefni þar sem góðar almenningssamgöngur eru fyrir hendi verði veittur forgangur við afgreiðslu. Einnig er lagt til að lögfest verði tímabundin forgangsregla þess efnis að Íbúðalánasjóður skuli við afgreiðslu umsókna miða við að að minnsta kosti tveir þriðju hlutar þess fjármagns sem til úthlutunar er hverju sinni renni til íbúða sem ætlaðar eru tekju- og eignalágum leigjendum á vinnumarkaði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir