Borinn frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða kom á laugardaginn niður á fimm sekúndulítra af 35 gráðu heitu vatni. Ljósm. sá.

Heitt vatn finnst í Ólafsdal – gjörbreytir möguleikum til heilsársrekstrar

Síðastliðinn laugardagsmorgun komu bormenn frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða niður á heitt vatn skammt fyrir neðan skólahúsið í Ólafsdal. Það er Minjavernd sem stendur að uppbyggingu á staðnum og segist Þorsteinn Bergsson framkvæmdastjóri að vatnsfundurinn á laugardaginn hafi glatt sitt gamla hjarta. „Þetta mun gjörbreyta öllum möguleikum til heilsársrekstrar í Ólafsdal en í það minnsta lengja rekstrarárið verulega,“ segir Þorsteinn í samtali við Skessuhorn.

Vatnið sem fannst er 35 gráðu heitt og skilar borholan um fimm sekúndulítrum. Vatnið fannst á 326 metra dýpi. „Við höfðum ákveðið að hætta borun á laugardaginn þannig að þetta mátti ekki tæpara standa. Bormennirnir höfuðu dýpkað holuna um einn metra þarna um morguninn þegar þeir komu þá niður á vatnsæðina.“ Þetta er önnur vinnsluholan sem boruð er í Ólafsdal en þar áður höfðu tvær hitastigulsholur verið boraðar til að miða út vænlega borstaði. Fyrri vinnsluholan gaf góða vísbendingu um hita í jörðu og segir Þorsteinn að ef ekki hefði verið komið niður á rennandi vatn hefði mátt virkja hitann í holunni með góðri varmadælu. „Þetta góða vatnsmagn þýðir að við munum nota vatnið beint til gólfhitunar en með varmadælum verður hitinn á því hækkaður í 60 gráður og vatnið leitt í ofna til kyndingar.“

Þorsteinn segir vatnsfundinn þýða byltingu fyrir uppbygginguna í Ólafsdal og möguleika til fjölbreyttrar þjónustu. „Fyrir framtíðarstarfsemi þýðir þetta meðal annars að við munum tengja heita potta og allskyns lúxus sem ella hefði verið dýrari í rekstri. Við hugsum mjólkurhúsið, stundum kallað Vatnshúsið, sem allsherjar baðhús. Á tíma Torfa Bjarnasonar og skólahalds í Ólafsdal var vatnslind úr fjallinu virkjuð og henni veitt heim í bæjarhúsin. Fyrst rann vatnið í gegnum fjósið og því var auðvelt að brynna kúnum, kæla mjólk og aðrar matvörur í mjólkurhúsinu, en einnig lá vatnspípan inn í önnur hús á tímum skólahalds. Við viljum halda á lofti þessari frumkvöðlastarsemi Torfa og nýta vatnið sem mest. Vatnshúsið verður því nýtt sem alsherjar baðhús með köldum potti, sturtum, snyrtingum og sauna. Heitur pottur verður þar fyrir utan. Nú er unnið að endurgerð fjóssins og verður húsinu lokið fyrir áramót. Eftir áramót fara menn að hreiðra um sig þar innandyra því næsta skref í framkvæmdum, eftir að því verki lýkur, eru lagfæringar á skólahúsinu innandyra. Þegar að því kemur á mannskapurinn að geta gist í fjósinu,“ segir Þorsteinn.

Torfi dregur ekki dul á að vatnsfundurinn síðastliðinn laugardag hafi verið eins og happadrættisvinningur fyrir starfsemina í Ólafsdal. „Þetta kemur til með að þýða ýmsa jákvæða hluti. Hitaveita þýðir auknar líkur á heilsársrekstra, í það minnsta lengir hún rekstrarárið. Hér verður bæði skemmtilegra og hagkvæmara að hafa ýmsa starfsemi.“ Unnið er af krafti í endurgerð húsanna í Ólafsdal. Ýmis sérsmíði fer fram í Reykjavík en vinna á staðnum er öll í höndum heimamanna úr Dölum og úr Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir