Á myndinni heldur Jóhannes úr Kötlum ræðu á samkomu ungmennafélagsins Ólafs páa í Laxárdal. Ljósm. af vef Byggðasafns Dalamanna.

120 ár frá fæðingu Jóhannesar úr Kötlum

Í dag eru 120 ár síðan drengur fæddist drengur á Goddastöðum í Laxárdal, síðar skírður Jóhannes Bjarni Jónasson. Á Facebook síðu Byggðasafns Dalamanna er skáldsins Jóhannesar úr Kötlum minnst. „Það er vel þess virði að staldra við í dag og rifja upp eins og eitt af ljóðum hans í huganum og/eða uppgötva eins og eitt nýtt ljóð eftir hann,“ segir í frétt safnsins. Mælt er með að áhugasamir kíki á vefinn johannes.is þar sem Svanur Jóhannesson og fleiri hafa gert ævi hans og verkum góð skil á áhugaverðri síðu.

Þar minnist Silja Dögg Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur Jóhannesar úr Kötlum: „Ef velja ætti eitt skáld sem fulltrúa 20. aldar á Íslandi yrði það nærri því óhjákvæmilega Jóhannes úr Kötlum. Hann lifði mikla umbrotatíma í sögu og bókmenntum og um engan samtímamann hans í skáldahópi verður sagt með jafnmiklum sanni að hann hafi fundið til í stormum sinnar tíðar. Enginn fylgir heldur eins nákvæmlega þróun ljóðlistarinnar á öldinni. Hann hóf feril sinn sem nýrómantískt skáld á þriðja áratugnum, innblásinn af löngun til að efla hag landsins og ást þegnanna á því. Hann var líka einlægur trúmaður og þó að hann yrði síðar gagnrýninn á guð almáttugan hélt hann alla tíð vinskap sínum við Jesú Krist, eins og launkímni ljóðaflokkurinn Mannssonurinn (1966) er dæmi um. Á kreppuárum fjórða áratugarins var hann í broddi fylkingar róttækra skálda, knúinn áfram af löngun til að efla sjálfstraust alþýðunnar og örva hana til að berjast fyrir bættum kjörum,“ skrifar Silja Dögg.

Katlarnir

Á síðunni johannes.is er sagt frá tilurð þess að Jóhannes tók upp skáldanafnið úr Kötlum: „Laxveiðiáin Fáskrúð, sem margir kannast við, á upptök sín langt inni á Gaflfellsheiði og rennur skammt frá Ljárskógaseli. Í grenndinni er eitt fallegasta svæðið við ána, Katlarnir. Þar er fegursti foss árinnar, ásamt tilheyrandi hyljum, stöpum, klettum og gljúfrum. Þetta er friðsæll, fagur og hrífandi staður, ævintýraheimur sem Jóhannes leitaði oft til á sínum uppvaxtarárum. Þegar Jóhannes gaf út sína fyrstu bók Bí, bí og blaka tók hann sér skáldanafnið Jóhannes úr Kötlum eftir þessu örnefni við ána Fáskrúð. Einnig var sú skýring sögð af þessari nafnbreytingu að annað skáld hefði komið fram á þessum tíma með mjög áþekku nafni og hefði Jóhannes viljað auðkenna sig greinilega með þessum hætti.“

Jóhannes úr Kötlum. Myndin er tekin 1932. Ljósm. johannes.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir