Giovanni Gaio fyrir framan Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Ljósm. tfk.

Ítalskur skiptinemi með frábæran árangur í stærðfræðikeppni

Ítalski skiptineminn Giovanni Gaio stundar nám við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Hann hefur einungis verið á Íslandi í tvo og hálfan mánuð en engu að síður bannaði hann fréttaritara Skessuhorns að ræða við sig á ensku. „Bara íslenska takk,“ sagði hann skýrmæltur. Giovanni býr í Stykkishólmi og unir hag sínum vel. Þriðjudaginn 29. október síðastliðinn hlaut hann viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræðikeppni framhaldsskólanema en hann lenti í 8.-10. sæti á efra stigi keppninnar. Með því vann hann sér inn þátttökurétt í úrslitum sem fara fram í mars á næsta ári. Það verður fróðlegt að fylgjast með þessum efnilega Ítala spreyta sig á meðal fremstu stærðfræðinema landsins, en hann horfir með tilhlökkun til þeirrar áskorunar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir