Fullt hús gesta var í Dalabúð á sviðaveislu á laugardagskvöldið. Ljósm. Skessuhorn/ Steinþór Logi Arnarsson.

Glatt á hjalla á haustfagnaði

Það var glatt á hjalla meðal sauðfjárbænda í Dölum síðastliðna helgi þegar árlegur haustfagnaður var haldinn. Fögnuðurinn, sem er haldinn af Félagi sauðfjárbænda í Dalasýslu, var með nokkuð breyttu sniði frá því sem hefur verið síðustu ár. Hófst hann á föstudagskvöldi með hrútasýningu sunnan varnarlínu á Stóra-Vatnshorni í Haukadal. Þar voru hrútar þuklaðir í þremur flokkum; hvítir hyrndir, hvítir kollóttir og mislitir, auk þess sem fólki gafst kostur á að skoða húsakostinn á staðnum. Á laugardeginum var hrútaþukli haldið áfram norðan varnarlínu, á Breiðabólsstað á Fellsströnd. Þar voru jafnframt veittar viðurkenningar fyrir bestu fimm vetra ærnar, best stiguðu lífgimbrar haustsins og ljósmyndasamkeppni félagsins þar sem þemað var „börn í búskap“.

Haustfögnuðinum lauk svo með hinni margrómuðu sviðaveislu í Dalabúð á laugardagskvöldið þar sem gestir gæddu sér á ferskum, reyktum og söltum sviðum á meðan hagyrðingar léku listir sínar undir stjórn Sveinbjörns Eyjólfssonar. Að því loknu var dansleikur með Greifunum fram eftir nóttu.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir