Ökumenn undir áhrifum

Ökumaður var stöðvaður þar sem hann ók um Grundarbraut í Grundarfirði laust fyrir kl. 16 síðastliðinn miðvikudag, grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Strokpróf sem tekið var á manninum svaraði jákvætt og var maðurinn því handtekinn, færður til blóðtöku og látinn gefa skýrslu. Að svo búnu var honum sleppt en hann var kærður fyrir athæfið. Á fimmtudag var ökumaður stöðvaður til móts við Hraunsás í Hálsasveit, grunaður um ölvun við akstur. Strokpróf sem tekið var af manninum gaf einnig merki um neyslu fíkniefna. Maðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöðina í Borgarnesi þar sem tekið var af honum blóð. Maðurinn var kærður fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og ölvunarakstur. Á sunnudaginn var ökumaður stöðvaður á Borgarbraut í Borgarnesi, grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hann var sömuleiðis prófaður með strokuprófi, sem svaraði jákvætt fyrir neyslu tveggja efna. Ökumaðurinn var handtekinn og heimilaði leit í bíl sínum. Þar fundust ætluð fíkniefni sem maðurinn sagði vera kókaín og marijúana. Maðurinn var handtekinn, gert að gefa blóðsýni og færður í fangaklefa en síðan sleppt. Beðið er eftir niðurstöðu blóðprufu og einnig rannsóknar á efnunum. Málið er til rannsóknar. Á sunnudagsmorgun var ökumaður stöðvaður við N1 í Borgarnesi, grunaður um ölvun við akstur. Var hann látinn blása og vínandamagn í útblæstri mældist 0,62 prómill, en saknæmismörk liggja við 0,50 prómill.

Líkar þetta

Fleiri fréttir