Ólafur Páll Gunnarsson og Hlédís Sveinsdóttir eru skipuleggjendur hátíðarinnar. Ljósm. úr safni/ Stella María Arinbjargardóttir.

Uppselt á Heima-Skaga hátíðina

Uppselt er á tónlistarhátíðina Heima-Skaga, sem haldin verður í fyrsta sinn á Akranesi næstkomandi föstudagskvöld, 1. nóvember og hefst hún kl. 20:00 í Haraldarhúsi. Á hátíðinnu munu koma fram sex listamenn sem munu spila tvisvar sinnum hver á sex stöðum á Akranesi. Á einu kvöldi verða því samtals haldnir tólf tónleikar.

Miðasala á Heima-Skaga hátíðina hefur gengið afar vel og nú er svo komið að uppselt er á hátíðina. Ólafur Páll Gunnarsson er annar skipuleggjenda hátíðarinnar, ásamt Hlédísi Sveinsdóttur. Hann kvaðst að vonum ánægður þegar Skessuhorn heyrði í honum hljóðið. „Við erum gríðarlega ánægð með viðtökurnar. Við vissum ekkert hvernig þetta myndi fara, því það getur verið erfitt að kynna nýja hugmynd. En fólk hefur alveg stokkið á þetta sem er mjög ánægjulegt,“ segir Ólafur Páll í sambandi við Skessuhorn. „Nú hefur fólk verið að hafa samband við okkur sem missti af miðum en staðan er bara þannig að því miður getum við getum ekki bætt fleiri miðum við,“ segir hann. „Við vonum að hátíðin heppnist vel og við fáum gott veður þegar fólk gengur á milli tónleikastaða,“ segir Óli Palli að endingu.

Sex tónleikastaðir

Þeir listamenn sem koma fram á fyrstu Heima-Skaga hátíðinni eru Friðrik Dór, Högni Egilsson, Jónas Sig, Ragnheiður Gröndal, Úlfur Úlfur og Valgeir Guðjónsson. Tónlistarflutningur verður í fjórum heimahúsum í gamla bænum á Akranesi; Vesturgötu 32, Vesturgötu 71b, Skólabraut 20 og Grundartúni 8. Auk þess verða tónleikar í Akraneskirkju og Bárunni brugghúsi. Allir þessir staðir eru í góðu göngufæri frá hvorum öðrum, þannig að fólk ætti ekki að vera nema örfáar mínútur að skjótast á milli staða.

Hátíðin hefst með óformlegri og afslappaðri setningarathöfn í Haraldarhúsi, Vesturgötu 32, kl. 20:00 á föstudagskvöld. Að svo búnu syngur Ragnheiður Gröndal fyrstu tóna hátíðarinnar og tónleikadagskrá hefst.

Ítarlega dagskrá og leiðarlýsingu er að finna á Facebooksíðu hátíðarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir