Logaland í Borgarfirði.

Nýbakaðir feður sigursælir í briddsinu

Síðastliðið mánudagskvöld lauk haustmóti Bridgefélags Borgarfjarðar. Þar var um að ræða fimm stök kvöld sem svo voru samreiknuð og þeir sem náðu hæstu skroinni á 4 kvöldum af 5 spila aðaltvímenninginn frítt. Guðmundur Arason og Elín Þórisdóttir leiddu mótið eftir fjögur kvöld og höfðu allnokkurt forskot. Þetta vissu nýbakaðir feður, Heiðar Baldursson og Logi Sigurðsson, og settu allt á fullt á lokakvöldinu. Skor þeirra var himinhátt eða 66,3% á meðan Guðmundur og Elín lentu í brasi og komu í mark með 48,3%. Þegar kvöldin voru samreiknuð kom í ljós að Heiðar og Logi höfðu samanlagða prósentu uppá 230,0 en Guðmundur og Elín 229,8. Peyjarnir spila því frítt næstu fjögur kvöld. En að lokakvöldinu: Næstir Loga og Heiðari á toppnum voru Viktor Björnsson og Magnús Magnússon, ekki ritstjóri, með 62,5% og þriðju urðu Rúnar Ragnarsson og Guðjón Karlsson með 56,7%. Fjórðu voru Helga Jónsdóttir og Sveinbjörn Eyjólfsson með 55%. Aðrir minna eins og svo oft en alls spiluðu 12 pör.

Næsta mánudagskvöld hefst svo aðaltvímenningurinn og tekur hann yfir alla mánudaga í nóvember. Spilaður verður Barometer með forgefnum spilum. Heimtur löguðust heldur síðasta kvöldið þó kollheimtur séu enn víðsfjarri, stefnt er á enn betri heimtur í nóvember.

-ij

Líkar þetta

Fleiri fréttir