Birna Hallsdóttir, deildarstjóri handlækningadeildar og Valdís Heiðarsdóttir, deildarstjóri lyflækningadeildar, sögðu gestum frá rúmunum og sýndu þeim hvernig þau virkuðu. Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, tók að sér að prófa. Ljósm. kgk.

Hollvinir færðu HVE tólf ný sjúkrarúm að gjöf

Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunar Vesturlands færðu HVE tólf ný sjúkrarúm að gjöf. Rúmin voru afhent formlega síðastliðinn miðvikudag. Það var Steinunn Sigurðardóttir, formaður Hollvinasamtaka HVE, sem afhenti gjöfina en Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, forstjóri HVE, veitti henni viðtöku fyrir hönd stofnunarinnar. Andvirði gjafarinnar er 6,5 milljónir króna.

Steinunn rifjaði í ávarpi sínu upp að hvatinn að stofnun Hollvinasamtaka HVE hefði verið að íbúar á Vesturlandi hefðu ætíð haft skoðanir á mikilvægi heilbrigðisþjónustu og litið á hana sem hornstein góðra búsetuskilyrða. Hlutverk samtakanna væri að fylgja þessari skoðun eftir og fá sem flesta íbúa og fyrirtæki á Vesturlandi til liðs við sig. Síðan rakti Steinunn í stuttu máli aðdragandann að söfnuninni fyrir rúmunum sem nú voru afhent, sem hefur staðið yfir frá í apríl síðastliðinum. Fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum bauðst að kaupa merkingu á rúmin. Sá háttur var hafður á að merking með fjórum var verðlögð á 125 þús. kr. en 500 þús. kr. fyrir að vera eitt með kostun rúms. Þá voru nafnlaus framlög einnig möguleg. „Undirtektirnar voru mjög góðar og alls söfnuðust 7,4 milljónir króna,“ sagði Steinunn. Enn fremur fór hún yfir verkefni hollvinasamtakanna á þeim fimm árum sem liðin eru frá stofnun þeirra. Árlega hafa HVE verið færðar gjafir og heildarupphæðin er orðin rétt tæpar 74,4 milljónir króna.

Ómetanlegur stuðningur

Næst sagði Jóhanna Fjóla nokkur orð. Lýsti hún mikilli ánægju og þakklæti með gjafirnar og stuðninginn af hollvinasamtökunum. „Fyrir okkur sem hér störfum er slíkur stuðningur ómetanlegur og mikil hvatning,“ sagði hún og bætti því við að fjölbreytt starfsemi HVE kallaði á mikinn tækjabúnað sem kostaði oft og tíðum mikla peninga. „En það er sameiginlegt öllum þeim sem leggjast hér inn að þeir þurfa sjúkrarúm. Þetta er sá búnaður sem er í mestri notkun hér á HVE,“ sagði Jóhanna Fjóla. Hún bætti því við að á Akranesi væru 44 sjúkrarúm sem flokkuðust sem bráðarými. Til að setja þörfina í samhengi hafi 2900 manns lagst inn á stofnanir HVE á Vesturlandi á síðasta ári, þar af 2.146 á Akranesi. Hún sagði sjúkrarúmin hafa verið lengi á óskalista HVE, en alltaf hafi þurft að taka önnur tæki framyfir. „Við erum glöð og þetta er frábært, að fá þessi rúm á einu ári. Við vorum að gæla við að kaupa fjögur rúm á hverju ári og slíkt framlag færir okkur á nýjar slóðir. Stuðningurinn sem felst í þessum gjöfum stuðlar að því að við getum viðhaldið þjónustu í háum gæðaflokki,“ sagði Jóhanna Fjóla.

Að svo búnu var gestum boðið að skoða rúmin. Valdís Heiðarsdóttir, deildarstjóri á lyflækningadeild og Birna Hallsdóttir, deildarstjóri á handlækningadeild, sögðu frá rúmunum og sýndu hvernig þau virka. Nutu þær aðstoðar Gísla Gíslasonar, hafnarstjóri Faxaflóahafna, sem fenginn var til að leggjast í eitt rúmanna. Ekki var annað að merkja en að mjög vel færi um Gísla í nýja rúminu.

Þegar Valdís og Birna höfðu sýnt rúmin og gefendur merkt þau með merkimiðum var gestum boðið að þiggja kaffiveitingar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir