Það er margt fallegt sem náttúran hefur uppá að bjóða.

Akrasel leiðir fjölþjóðlegt verkefni um umhverfisvernd

Leiksólinn Akrasel á Akranesi sótti nýverið um ERASMUS+ styrk ásamt sex öðrum þjóðum; Noregi, Ítalíu, Búlgaríu, Grikklandi, Tyrklandi og Póllandi. Styrkurinn fékkst og fer leikskólinn með forystu í verkefninu sem ber heitið Wonders of waist (WOW). „Áherslur í verkefninu eru umhverfismennt, endurvinnsla, endurnýting og fleira. Akrasel er grænfánaleikskóli og er verkefnið sniðið að umhverfisstarfi með börnunum og aðal áherslan lögð á umhverfismennt,“ segir Anney Ágústsdóttir, leikskólastjóri í Akraseli, og bætir því við að hver og einn þátttökuskóli fléttar sínum áherslum inn í verkefnið. „Leikskólinn Akrasel mun bæta við áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og reyna að leggja áherslu á góða umgengni við umhverfið og samfélagið allt. Allar þátttökuþjóðirnar sem ekki hafa grænfána hafa skuldbundið sig að sækja um hann samhliða þessu verkefni.“

Áhersla á endurnýtingu og að minnka rusl

Verkefnið hófst formlega vikuna 21. – 24. október með upphafsfundi í Akraseli þar sem fulltrúar allra ofangreindra þátttökuþjóða mættu. „Þar var verkefnum skipt niður og sett saman tímaáætlun. Næsti fundur verður í Konin í Póllandi. Allir þátttökuskólarnir ætla að fara yfir efni sem notuð eru daglega og skilgreina hvað sé endurvinnanlegt og hvað ekki, hvaða efni eru lífræn, náttúruleg og umhverfisvæn og hver ekki. Þá settu allir niður lista yfir efni sem á að reyna að minnka í umhverfinu,“ segir Anney. „Akrasel ætlar m.a. að reyna að minnka notkun á bleium, pappírshandþurrkum og blautþurrkum og leggja áherslu á að nýta allan mat og molta það sem ekki er notað.“ Í Akraseli hefur lífrænn útgangur verið jarðgerður/moltaður frá opnun skólans árið 2008. „Sú vinna heldur áfram og ormarnir okkar verða settir í öndvegi í þessari vinnu. Ormamolta er afurð sem verður til þegar ánamaðkar (haugormar) eru notaðir til að brjóta niður lífrænar leifar. Þetta er fljótlegasta leiðin til að breyta lífrænum úrgangi í nýtanlega næringu fyrir plönturæktun t.d. matjurta- eða blómarækt,“ segir Anney.

Líkar þetta

Fleiri fréttir