Veturnætur á síðasta ári. Ljósm. Myndsmiðjan.

Veturnætur á Byggðasafninu – fyrir þá sem þora!

Eins og margir vita halda draugar til á Byggðasafninu í Görðum á Akranesi og af því tilefni verður hátíðin Veturnætur haldin þar (fyrir þá sem þora) í þriðja skipti fimmtudaginn 31. október frá klukkan 19:30-21:30. „Þetta er ævaforn skandinavísk hátíð sem fáir þekkja þó í dag, svo þetta er eiginlega líka smá skemmtimenntun í boði okkar þar sem við ætlum að fræða gesti um hátíðina,“ segir Sigríður Lína Daníelsdóttir í samtali við Skessuhorn. Hátíðin var haldin á Íslandi fyrir þúsund árum og var þessi dagur eiginlega eins og áramót þess tíma. „Á þessum tíma var til dæmis mikið um brúðkaup og allskonar viðburði en þá taldi fólk tímann í vetrum og nóttum og þaðan kemur nafn hátíðarinnar. Þessi viðburður og samskonar viðburður á Írlandi, sem nefnist Samhain, eru í raun grunnurinn af hrekkjavökunni sem við þekkjum flest, en það eru ekki margir sem vita það. Hrekkjavakan á því í raun rætur hingað til Íslands og Írlands. Það er því við hæfi að halda hátíðina hér á Akranesi,“ segir Sigríður.

Þetta kvöld verður Byggðasafninu breytt í draugahús, slökkt verður á ljósum, nema örfáar útvaldar ljóstírur fá að loga. Það verða á ferðinn afturgöngur og ýmsar hræðilegar verur sem hugrökkum gæti þótt gaman að rekast á. „Við bjóðum fólki til okkar í tvær klukkustundir að ganga um draugahúsið og verðum við með frítt sælgæti og auðvitað frítt inn líka,“ segir Sigríður en hún stendur fyrir hátíðinni ásamt Auði Líndal. „Við erum í raun tvær að standa fyrir þessu og höfum fengið til liðs við okkur krakka úr Grundaskóla og nokkra vini og vandamenn í bænum. Þetta er í raun samfélagsverkefni og boðskapurinn er að það þarf ekki að kosta mikið að setja saman eitthvað svona til að brjóta upp hversdagsleikann,“ segir Sigríður og hvetur alla sem hafa hugrekki til að koma. Þá er mælt með því að viðkvæmar sálir og börn yngri en 12 ára hafi einhvern eldri og hugrakkari með í för.

Líkar þetta

Fleiri fréttir