Landsmót Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar var í Snæfellsbæ

Landsmót Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar, ÆSKÞ, var haldið í Snæfellsbæ um síðustu helgi. Heppnaðist mótið vel enda mikil og góð dagskrá alla helgina. Á mótið mættu um 240 manns, bæði unglingar og leiðtogar þeirra, frá hinum ýmsu æskulýðsfélögum á landinu. Fjölgaði því heldur betur í Ólafsvík þessa helgi. Ungmennin gistu í húsnæði grunnskólans og konur í Kvenfélagi Ólafsvíkur sáu um matinn.

Mótið var sett á föstudagskvöldinu í félagsheimilinu Klifi af frú Agnesi M. Sigurðardóttur biskupi Íslands. Fyrr um daginn höfðu krakkarnir tekið forskot á sæluna og farið í ratleik um Ólafsvík. Að setningu lokinni var farið í sundlaugarpartý í sundlaug Snæfellsbæjar áður en farið var að hvíla sig. Krakkarnir vöknuðu svo snemma á laugardeginum og fengu sér morgunmat áður en þeir fóru í fræðslu sem fram fór í Klifi. Eftir hádegi var svo hópastarf þar sem krakkarnir gátu valið úr hinum ýmsu hópum sem voru hver öðrum skemmtilegri. Seinni partinn var svo hæfileikakeppni þar sem fulltrúar æskulýðsfélaganna sýndu hæfileika sína og voru atriðin hvert öðru betra. Að þessu sinni var það æskulýðsfélagið í Snæfellsbæ sem vann keppnina. Að loknum kvöldverði tók svo við kvöldvaka sem endaði með balli þar sem hljómsveitin Melophobia og DJ Víðir og Dýrið sáu um fjörið. Lauk mótinu svo á helgistund í Ólafsvíkurkirkju þar sem séra Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti prédikaði og félagar úr Melophobia sáu um tónlistina. Það voru því þreyttir en glaðir unglingar sem héldu af stað heim á leið eftir vel heppnað mót þar sem þeir voru sjálfum sér og öðrum til mikils sóma. Næsta landsmót verður á Sauðárkróki á næsta ári.

Líkar þetta

Fleiri fréttir