Forsetahjónin væntanleg í opinbera heimsókn á Snæfellsnes

Guðni Th. Jóhannesson, Forseti Íslands og frú Eliza Reid eiginkona hans, halda í opinbera heimsókn til Snæfellsbæjar miðvikudaginn 30. október og heimsækja svo Grundarfjarðarbæ daginn eftir. Í Snæfellsbæ munu forsetahjónin meðal annars heimsækja starfsstöðvar Grunnskóla Snæfellsbæjar, heilsa á leikskólabörn og eldri kynslóðina á Dvalarheimilinu Jaðri. Forsetahjónin munu heimsækja atvinnufyrirtæki á staðnum, þar á meðal fiskverkunina Valafell og KG fiskverkun, auk þess sem þau sækja málstofu sem Snæfellsbær efnir til um áskoranir og tækifæri í ferðaþjónustunni á Snæfellsnesi. Um kvöldið býður bærinn til fjölskylduhátíðar í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík klukkan 20.

Fimmtudaginn 31. október verður svo hin opinbera heimsókn í Grundarfjarðarbæ. Þar eins og í Snæfellsbæ munu hjónin kynna sér starfsemi bæjarfélagsins, heimsækja ungu kynslóðina í grunn- og leikskólum og líta inn hjá eldri borgurum auk þess sem komið verður við í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Einnig heimsækja hjónin fiskvinnslu Guðmundar Runólfssonar og fleiri atvinnufyrirtæki, eiga fund með skátum og sækja svo málstofu um sjávarútvegsmál í Bæringsstofu. Opinni dagskrá heimsóknarinnar lýkur með opnu húsi fyrir bæjarbúa í Sögumiðstöðinni þar sem heimamenn bjóða upp á tónlistaratriði og léttar veitingar og hefst sú samkoma klukkan 16:20.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mottumars er hafinn

Átaki Krabbameinsfélagsins, Mottumars, var formlega hrundið af stað síðastliðinn föstudag. Átakið snýst um, eins og landsmenn þekkja, krabbamein í körlum.... Lesa meira